Olise, Branthwaite, Gutierrez, Guimaraes, Zubimendi og fleiri góðir í slúðurpakka dagsins
banner
   lau 12. apríl 2014 19:34
Brynjar Ingi Erluson
Roy Keane: Leikmenn Arsenal þurfa að hugsa sinn gang
Mynd: Getty Images
Roy Keane, fyrrum fyrirliði Manchester United og núverandi sparkspekingur á ITV, segir að leikmenn Arsenal þurfi alvarlega að hugsa sinn gang eftir að hafa lagt Wigan Athletic í vítaspyrnukeppni enska bikarsins í dag.

Arsenal hafði betur gegn Wigan í dag eftir vítaspyrnukeppni en Jordi Gomez kom Wigan yfir í venjulegum leiktíma áður en Per Mertesacker jafnaði metin.

Leikurinn fór alla leið í vítaspyrnukeppni þar sem Lukasz Fabianski reyndist hetja Arsenal og varði tvær spyrnur en liðið fagnaði gríðarlega er ljóst var að liðið myndi spila í úrslitum bikarsins.

Roy Keane, sem fagnaði ansi mörgum titlum hjá Manchester United, var þó steinhissa að sjá leikmenn Arsenal fagna sætinu í úrslitunum svona mikið enda var liðið einungis að vinna lið í Championship-deildinni.

,,Þessir leikmenn Arsenal þurfa alvarlega að fara að hugsa sinn gang. Á síðustu leiktíð fagnaði liðið gríðarlega þegar það tryggði sér fjórða sætið gegn Newcastle," sagði Keane.

,,Núna er liðið að missa sig úr fögnuði yfir því að leggja lið úr Championship-deildinni að velli í vítaspyrnukeppni. Við erum að tala um Arsenal FC hérna," sagði Keane að lokum.
Athugasemdir
banner
banner
banner