Isak, Tuchel, Sesko, Amorim, Rabiot, Branthwaite og fleiri góðir í slúðrinu í dag
   mán 16. janúar 2017 14:30
Magnús Már Einarsson
Enski boltinn
Maggi Gylfa: Pogba hefði gott af því að búa hjá Ferguson
Paul Pogba átti ekki góðan dag í gær.
Paul Pogba átti ekki góðan dag í gær.
Mynd: Getty Images
Magnús Gylfason.
Magnús Gylfason.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Wayne Rooney.
Wayne Rooney.
Mynd: Getty Images
„Þetta var skelfilegur dagur hjá honum. Mér fannst hann vera lélegur í öllu. Hann vann ekki skallaeinvígi og hann var aldrei til staðar á miðjunni þegar átti að blása til sóknar. Mér fannst þetta vera einn lélegasti leikur sem ég hef séð hann spila fyrir United," segir Magnús Gylfason, stuðningsmaður Manchester United, aðspurður út í frammistöðu Paul Pogba í 1-1 jafnteflinu gegn Liverpool í gær.

Pogba átti mjög dapran dag en hann fékk meðal annars á sig klaufalega vítaspyrnu sem Liverpool skoraði úr. Fyrir leikinn var greint frá því að Pogba væri fyrsti fótboltamaðurinn til að fá eigin „emoji" á Twitter undir #pogba. Auglýsingaskilti voru á vellinum í gær til að auglýsa #pogba og Magnús segir að þetta hafi truflað leikmanninn.

„Mér fannst þetta vera skelfileg tímasetning. Þetta er orðinn stór hluti af tekjum og svoleiðis hjá þessum strákum en þetta var hræðilegt atriði í gær, að þetta skuli poppa upp rétt fyrir leik og svo mætir hann með þessa hárgreiðslu í leikinn. Eins og maður skynjaði á allri umræðu í gær þá var maðurinn bara ekki til staðar og ekki í standi til að spila leikinn. Það kom bersýnilega í ljós í leiknum."

Margt sem Ferguson setti upp ekki lengur til staðar
Sir Alex Ferguson, fyrrum stjóri Manchester United, hélt uppi miklum aga. Hefði hann leyft auglýsingar á kassamerki Pogba í kringum leikinn í gær? „Aldrei. Hann (Pogba) er með kolbilaðan umboðsmann og ég veit ekki hvernig þetta virkar, hvort Jose Mourinho er spurður leyfis en Pogba hefði bara gott af því að búa hjá Ferguson næstu 4-5 mánuðina til að fá smá uppeldi," segir Magnús.

„Margt sem Ferguson setti upp hjá Manchester er ekki lengur. Maður hefur heyrt af mörgum eins og að leikmenn hafi ekki mátt kaupa ákveðna bíla fyrr en þeir voru búnir að vera X mörg ár í aðalliðinu og svo framvegis. Maður hefði haldið að þetta myndi ekki gerast en tímarnir eru breyttir og United þarf að aðlagast því eins og aðrir."

Telur að Rooney muni koma sterkur til baka
Wayne Rooney, fyrirliði Manchester United, hefur lengi verið uppáhalds leikmaður Magnúsar. Rooney kom inn á sem varamaður í síðari hálfleik í gær en hann hefur ekki átt fast sæti í liði Manchester United.

„Ég er búinn að berja hausnum við stein og vil að hann spili alltaf. Mér finnst hann hafa meiri karakter og sigurvilja en margir inn á. Það skiptir rosalega miklu máli í svona liði. Mér fannst hann standa sig ágætlega í síðari hálfleik. Hann hefði vissulega getað gert betur í ákveðnum atriðum en hann var í fínu lagi," sagði Magnús.

„Staða hans innan United er greinilega þannig að hann er ekki í byrjunarliðinu, sérstaklega ekki á móti sterkari liðum. Mourinho er varnarsinnaðari en margir og hann var með þrjá menn á miðjunni í gær og enginn var sóknarsinnaður. Ég vil að United spili með Rooney, Mata eða Mkhitaryan fremstan á miðju þegar liðið spilar. Rooney er að eldast eins og aðrir en ég held að hann eigi eftir að koma sterkur til baka og vera góður með United í 1-2 ár í viðbót."

Ánægður með seinni hálfleikinn
Niðurstaðan í leiknum í gær var 1-1 eftir hraðan og nokkuð fjörugan leik.

„Mér fannst pressan vera virkilega góð hjá Liverpool í fyrri hálfleik. Þeir gerðu okkur virkilega erfitt fyrir því við höfum ekki varnarmenn til að spila út úr vörninni. Við vorum að reyna það og réðum ekki við það. Samt sköpuðum við tvö dauðafæri einn á móti markmanni í fyrri hálfleik og við hefðum átt að komast yfir áður en þetta víti kom. Það var alveg glórulaust hjá Pogba."

„Í seinni hálfleik var ég nokkuð ánægður með mína menn. Það var breytt um taktík og við sendum meira af löngum boltum til að fara framhjá hápressu Liverpool sem við réðum ekki við að spila í gegnum. Eftir það fannst mér við vera mikið betri og við hefðum hugsanlega átt að vinna þetta,"
sagði Magnús að lokum.
Athugasemdir
banner
banner
banner