Jesus gæti farið frá Arsenal - Möguleg stjóraskipti hjá Man Utd og Bayern - Dortmund vill halda Sancho
banner
   þri 16. apríl 2013 16:15
Útvarpsþátturinn Fótbolti.net
Henrik Bödker: Orðið auðveldara að fá Dani til Íslands
Henrik Bödker lætur í sér heyra á hliðarlínunni.
Henrik Bödker lætur í sér heyra á hliðarlínunni.
Mynd: Fótbolti.net - J.L.
Þjálfarateymi Stjörnunnar.
Þjálfarateymi Stjörnunnar.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Bödker hefur spilað í þremur efstu deildum Íslands.
Bödker hefur spilað í þremur efstu deildum Íslands.
Mynd: Fótbolti.net - Hörður Snævar Jónsson
Bödker fékk Alexander Scholz til Stjörnunnar en hann fékk í kjölfarið samning frá Lokeren í Belgíu.
Bödker fékk Alexander Scholz til Stjörnunnar en hann fékk í kjölfarið samning frá Lokeren í Belgíu.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Bödker fær að líta gula spjaldið þegar hann lék í markinu hjá Víði í 2. deildinni.
Bödker fær að líta gula spjaldið þegar hann lék í markinu hjá Víði í 2. deildinni.
Mynd: Hafþór Hreiðarsson
Ryan Giggs hefur skorað framhjá Bödker.
Ryan Giggs hefur skorað framhjá Bödker.
Mynd: Getty Images
Bödker skilur ekki af hverju Sölvi Geir Ottesen er úti í kuldanum hjá FC Kaupmannahöfn.
Bödker skilur ekki af hverju Sölvi Geir Ottesen er úti í kuldanum hjá FC Kaupmannahöfn.
Mynd: Getty Images
Daninn Henrik Bödker hefur haft mikil áhrif á Pepsi-deildina síðustu ár en hann er hluti af þjálfarateymi Stjörnunnar. Þessi skemmtilegi karakter kom fyrst hingað 2007 og var þá markvörður ÍBV.

Hann var í löngu spjalli í útvarpsþætti Fótbolta.net síðasta laugadag.

„Þegar ég kom fyrst hingað var ég búinn að falla með liði mínu í Danmörku og ég hafði alltaf haft áhuga á að prófa að spila erlendis. En ég gerði mér grein fyrir því að það yrði ekki hjá Real Madrid eða slíku liði," segir Bödker.

Tómas Ingi sagði mér að fara í ÍBV
„Ég talaði við nokkra vini mína. Ég spilaði á sínum tíma með Tommy Nielsen, Allan Borgvardt og Denni Siim. Þeir mældu með því að ég talaði við Tómas Inga (tómasson) sem einnig spilaði í Danmörku á sínum tíma. Hann sagði mér að fara í ÍBV."

Bödker lék síðan með Hetti, Þrótti og Víði Garði áður en hann lagði hanskana á hilluna og fór að snúa sér að markmannsþjálfun að fullu. Hann var ráðinn til Stjörnunnar en þar átti hlutverk hans eftir að stækka mikið.

„Ég tek virkan þátt í öllum æfingum og er að þjálfa yngri markverðina líka. Ég vil helst vera með puttana í öllu en stærsti hluti starfsins er markmannsþjálfunin. Stundum aðstoða ég félagið líka við að finna erlenda leikmenn til að styrkja liðið," segir Bödker sem er ansi líflegur á bekknum.

„Stundum verð ég hræddur við sjálfan mig þegar ég sé upptökur af mér. Ég vona að fólk geri sér grein fyrir því að þetta stendur yfir í 90 mínútur og þegar leik er lokið er allt önnur saga. Maður þekkir þetta sem markvörður. Þegar þú ert útispilari þá geturðu látið finna fyrir þér og tekið einhverjar tæklingar. Það var erfitt að fá útrás fyrir ástríðuna sem markvörður en það er enn erfiðara á hliðarlínunni!"

„Ég viðurkenni það að ég er miklu stressaðri sem starfsmaður en ég var sem leikmaður."

Bjarni ýtti á mig að nýta samböndin
Bödker hefur auk verið í nokkurskonar njósnastarfi hjá Stjörnunni og hjálpað liðinu að fá til sín öfluga danska leikmenn.

„Þetta byrjaði fyrir tilstuðlan Bjarna Jóhannssonar. Ég tel mig hafa spennandi tengsl inn í danska markaðinn og Bjarni ýtti á mig að nota þau sambönd. Það reyndist svo ganga vel og við gátum byggt ofan á það. Við höfum verið sniðugir og heppnir um leið."

Alexander Scholz opnaði dyr
„Það var erfitt í byrjun að fá danska leikmenn til Íslands en það er auðveldara í dag. Saga Alexander Scholz opnaði dyr. Þá er ég að reyna að auka orðspor Stjörnunnar og íslenskan fótbolta gegnum í Danmörku," segir Bödker en Scholz sló í gegn með Stjörnunni í fyrra og fékk í kjölfarið samning hjá Lokeren í Belgíu þar sem hann spilar við góðan orðstír.

„Ég hef mikla trú á honum og tel að eftir 2-3 ár geti hann farið í eina af fjórum bestu deildum heims. Hæfileikarnir munu ekki halda aftur af honum, það verður hausinn ef það er eitthvað. Hann er sérstakur karakter en ef hann er með hausinn rétt skrúfaðan á getur hann náð mjög langt. Scholz er ungur og á möguleika á að komast í danska landsliðið þó liðið sé vel skipað hvað varðar miðverði."

„Leikmenn geta lært mikið á því að koma til Íslands að spila og lært að höndla pressu. Það er mikil fjölmiðlaumfjöllun um deildina og verið að dæma menn og frammistöðu þeirra. Það er ekki hægt að fela sig og það er mjög góð reynsla fyrir unga danska leikmenn."

Bödker segir að gæði Pepsi-deildarinnar séu mikil miðað við stærð Íslands.

„Áhuginn á deildinni er mikill þrátt fyrir hve lítil hún er. Tempóið er hátt og allir vita að íslenskir fótboltamenn eru vinnusamir. Það vantar margt upp á varðandi taktík sem er skiljanlegt þar sem þetta eru ekki atvinnumannalið."

„Skemmtanagildi deildarinnar er mikið og það getur ekki hver sem er gengið inn í hana. Þetta er eitthvað sem þarf að hafa huga þegar erlendur leikmaður er fenginn, hann þarf að hafa réttu karakterseinkennin," segir Bödker sem hefur einnig aðstoðað fleiri félög hér á landi að fá til sín danska leikmenn.

„Ég hef með glöðu geði aðstoðað lið sem eru í 1. deildinni en þar sem ég er starfandi fyrir Stjörnuna geri ég það ekki fyrir önnur lið í Pepsi-deildinni."

Vill vera hluti af liði
En hefur hann hugsað út í að gerast umboðsmaður?

„Ég hef hugsað út í það en ef maður fer á fullu í það að verða umboðsmaður þá mun maður sakna þess þáttar að vera hluti af liði. Ég vil upplifa spennuna sem fylgir því þegar leikur nálgast og öllu því. Ég er mjög ánægður með starf mitt hjá Stjörnunni sem stendur."

Það þarf ýmislegt að smella saman svo erlendir leikmenn nái að blómstra í íslenska boltanum.

„Stundum koma danskir leikmenn til landsins sem fá bara góð meðmæli að utan en ná ekki að aðlagast og styrkja ekki liðin. Svo er leikmaður eins og Mark Tubæk sem er núna hjá Þór. Frábær leikmaður en ég var ekki viss um að hann myndi geta búið í litlu samfélagi á Íslandi þar sem veðuraðstæður eru misjafnar. Á endanum fann hann sig samt mjög vel."

Það hefur gerst að hæfileikaríkur erlendir leikmenn sem koma hingað til lands eiga erfitt með að aðlagast og reynast erfiðir í umgengni.

„Það hlýtur augljóslega að vera ástæða fyrir að leikmaður sem er með mjög flotta ferilskrá kemur til Íslands. Þá verður að skoða málin betur og hvaða saga liggur bak við leikmanninn. Það er auðvelt að finna góða leikmenn í Danmörku en það þarf að hugsa dýpra. Oftast virkar betur að fá leikmenn frá smærri bæjarfélögum í Danmörku en frá Kaupmannahöfn sem dæmi."

Frábær upplifun að spila á móti Manchester United
Bödker á það á ferilsskránni að hafa spilað gegn Manchester United en það gerði það með FC Árósum.

„Það var frábær upplifun. Ég var tvítugur á þessum tíma og Manchester United augljóslega gríðarlega stórt lið. Þetta var sýningarleikur og við vorum í B-deildinni en fengum nokkra leikmenn úr efstu deild. Mér gekk vel en það var kannski auðvelt í ljósi þess að United átti einhver milljón skot," segir Bödker sem fékk á sig þrjú mörk. Þau skoruðu Ryan Giggs, Ruud van Nistelrooy og Diego Forlan.

Íslensku leikmennirnir standa sig á vellinum
Bödker segir að þeir íslensku leikmenn sem spila í Danmörku séu hátt skrifaðir í landinu.

„Þeir eru mikils metnir. Maður heyrir varla slæman hlut um íslenska fótboltamenn þarna. Þeir eru ekki kvartandi, leggja sig alla fram, líta ekki of stórt á sig og standa sig á vellinum. Dönsk félög eru samt hrædd við að fá leikmenn beint úr íslensku deildinni. Félög annarstaðar þurfa að hafa veðjað á þá."

Sölvi Geir Ottesen, landsliðsmaður og leikmaður FC Kaupmannahafnar, er hátt skrifaður hjá Bödker en Sölvi er þó úti í kuldanum hjá félagsliði sínu og fær ekkert að spila.

„Hann var besti leikmaður SönderjyskE og fór svo til FC Kaupmannahafnar. Ég var með smá áhyggjur af þeim skiptum því SönderjyskE hafði pakkað í vörn. Hjá FCK þurfti hann að fara framar. En hann þaggaði niður í gagnrýnisröddum og var að mínu mati magnaður hjá FCK. Ég veit ekki hvað gerðist en ég skil ekki af hverju hann er úti í kuldanum," segir Henrik Bödker.

Stefnir á að verða þjálfari
Bödker býst við að vera á Íslandi næstu árin. „Ég fer sjaldan til Danmörku í dag og er farinn að tala um að fara heim þegar ég fer til Íslands. Mér líkar lífið hér en þarf aðeins að bæta mig í íslenskunni," segir Bödker sem er þó farinn að geta talað tungumálið og skilur nánast allt sem sagt er.

Hvernig sér hann framtíðina fyrir sér? Verður hann í þessu starfi hjá Stjörnunni næstu árin?

„Ég hef mikinn áhuga á þjálfun. Þetta er eitthvað sem ég stefni að og er að læra. Þá er ég ekki að tala um að þjálfa bara markverðina heldur líka útileikmenn. Ég vonast til að verða alhliða þjálfari."

Síðari hluti viðtalsins verður birtur á morgun en þar talar Bödker nánar um Stjörnuna og komandi tímabil í Pepsi-deildinni

Sjá einnig:
Smelltu hér til að hlusta á upptöku frá þættinum þar sem rætt var við Bödker
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner
banner