Olise, Branthwaite, Gutierrez, Guimaraes, Zubimendi og fleiri góðir í slúðurpakka dagsins
banner
   fös 17. mars 2017 20:30
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Umboðsmaður Yaya Toure: Af hverju ekki Man Utd?
Hvað verður um Yaya Toure?
Hvað verður um Yaya Toure?
Mynd: Getty Images
Umboðsmaður Yaya Toure, miðjumanns Manchester City, segir að leikmaðurinn sé tilbúinn að fara frá félaginu í sumar, en svo gæti farið að hann skipti yfir á næsta bæ.

Samningur Toure rennur út eftir þetta tímabil, en Dimitri Seluk, umboðsmaður leikmannsins, segir að ekkert tilboð hafi borist frá City.

Umboðsmaðurinn segist ekki útiloka neitt, algjörlega ekki neitt! Hann segir jafnvel möguleika á því að Toure muni færa sig yfir til nágranna City í Man Utd, þar að segja ef sanngjarnt tilboð berst.

„Á þessari stundu er staðan svona; frá gærdeginum byrjuðum við formlega að ræða við önnur félög um framtíð hans," sagði Seluk.

„Við biðum til 15. mars til þess að sjá hvað Manchester City myndi segja, en þeir hafa ekki sagt neitt. Við getum ekki beðið fram á síðustu stundu."

„Nokkur félög hafa haft samband við mig. Núna höfum við þrjá möguleika. Ég tala ekki um Yaya og Kína eða MLS-deildina. Hann mun spila í Evrópu. Ég hef talað við félög í öðrum löndum; á Ítalíu og Spáni."

„Félög á Englandi biðu eftir að sjá stöðuna á Manchester City, en núna getum við rætt á Englandi og ég mun fljótlega koma til Englands í viðræður. Yaya verður að vera búinn að semja við annað félag áður en hann fer í frí," sagði umboðsmaðurinn.

Að mati Seluk þá er það vel mögulegt að Yaya geti farið til nágranna City í United. Þar er að finna gamlan liðsfélaga og góðan þjálfara.

„Af hverju ekki?" sagði Seluk aðspurður út í Man Utd. „Jose Mourinho er mjög góður þjálfari og Zlatan Ibrahimovic var með Yaya hjá Barcelona."
Athugasemdir
banner
banner