Olise, Branthwaite, Gutierrez, Guimaraes, Zubimendi og fleiri góðir í slúðurpakka dagsins
   sun 22. mars 2015 13:08
Magnús Már Einarsson
Kristinn R.: El Clásico: Enn gengið á hólm í stóraslag
Mynd: Getty Images
Kristinn R. Ólafsson hefur komið með pistla um spænska boltann á Fótbolta.net í vetur.

Barcelona og Real Madrid mætast í kvöld klukkan 20:00.

Þessir erkifjendur eru í tveimur efstu sætum La Liga eins og svo oft áður.

Leikurinn í kvöld gæti ráðið miklu í titilbaráttunni og Kristinn hefur skilað skemmtilegum upphitunar pistli.

Hægt er að hlusta á pistilinn hér að neðan í boði Coca-Cola. Njótið vel!




Þá er komið að því aftur: stórislagur Börsunga og Madrídinga - El Clásico – háður á Nývangi. Madrídingar eiga þess kost að komast tvö stig yfir erkifjendur á toppi deildarinnar en Börsungar eru engin lömb að leika sér við, erfiðir heim að sækja og geta nú tryggt sig í sessi; komist fjögur stig yfir „hvítvoðungana“ í Real Madrid.

Börsungar, með Messi í broddi fylkingar, hafa mjög sótt í sig veðrið á nýju ári, skotið Madríndingum ref fyrir rass í deildinni en nokkur blettur fallið á hvítar voðir þeirra Kristins Rögnvalds og félaga, þeim brugðist nokkuð bardagalistin, frægðarfullum stórmerkjum þeirra fækkað og logi þeirra við nokkurn slitranda brunnið stundum. Annað er uppá teningnum nú en þegar sveitirnar leiddu saman hesta sína á Bernabeu-leikvangingum í Madríd í haust þegar Real Madrid lagði Barselónu 3-1. Þá fóru Börsungar skakkt á skeiðinu, allar skeifur undan þeim en berast nú á fáki fráum fram um veg, öfugt við Madrídinga sem hafa einhvernveginn staðið illa í ístaðinu, komnir með hnakkinn hálfpartinn undir kvið.
Miðjumenn hafa tögl og hagldir í leik, það er gamall sannleikur, segja sparkspekingar, og eftir þeim fari hvað gerist í teignum. Það hefur verið aðal Börsunga og er enn, en með nýjum áherslum. Nú er þetta ekki eilíft tikítaka. Luis Enrique þjálfari þeirra vill frekar sjá miðjumennina inní teignum að reka smiðshöggið á sókn heldur en á miðjunni að hekla og prjóna flúr endalaust. „Ef við getum gert mark í skyndisókn, fer ég ekki að segja þeim að stoppa og byrja uppá nýtt,“ er haft eftir honum.

Þjálfarateymi Madrídinga hefur komist að súrsætri niðurstöðu. Þeir hafa úr sveit afburðamanna að velja, þar sem finna má bestu leikmenn í heimi til að skapa á miðjunni og næra framlínuna, þá Modric, Kroos, James og Isco. En sparkspekingar segja tvennt vera til ama: Annarsvegar sá fótboltalegi ómöguleiki að finna þeim réttan stað á svæðum sem Bale, Benzema og Cristano Ronaldo eru fyrir á, og hinsvegar að laga þá að miðjunni þar sem þeir Kroos, Modric og Isco eiga að taka að sér varnarstörf gagnsætt þeirri framsókn sem þeim er blóð borin, í ómengaðri merkingu þess orðs. Verstu mörk sem Madrídingar hafa fengið á sig hafa orðið þegar bil hefur myndast milli miðjunnar og varnarlínunnar, glufa sem sóknarmenn andstæðinga smeygja sér í gegnum, og þar er einkum bent á Kroos.

Miðja Börsunga er í meira jafnvægi en Madrídinga. Talnafræðin sýnir breytingar. Miðverðir hafa tekið þátt í 25 prósentum marka Börsunga í deildarkeppninni en miðjumenn Madrídinga verið með í leik í 48 prósentum marka. Luis Enrique biður miðverði sína að leita að Messi en hann er meistari meistaranna í að komast innfyrir menn einsog Kroos.

En spennan er tryggð. Í þessum stóraslag á Nývangi etja liðin fram bestu og mestu framvörðum í heimi. Bale, Benzema og Ronaldo í röðum Madrídinga en Suárez, Neymar og Messi hjá Börsungum. Engir gutlarar þar á ferð, banvænir þríforkar í hvorri sveit. En ein þversögn í því og enn skal vitnað í talnameistara. Hvorirtveggja, Börsungar og Madrídingar, skora færri mörk og vinna síður rimmu þegar allir markaskorarar þeirra leika saman.
Taktu þátt í HM-umræðunni á Facebook! Smelltu hér til að fara á heimasvæði Fótbolta.net á Facebook þar sem oft skapast líflegar umræður um boltann.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner