Olise, Branthwaite, Gutierrez, Guimaraes, Zubimendi og fleiri góðir í slúðurpakka dagsins
banner
   þri 24. maí 2016 09:50
Elvar Geir Magnússon
Bestur í 2. deild: Fékk fullan skilning frá Eyjum
Leikmaður 3. umferðar - Hafsteinn Gísli Valdimarsson.
Leikmaður 3. umferðar - Hafsteinn Gísli Valdimarsson.
Mynd: Njarðvík
Mynd: Njarðvík
Miðvörðurinn Hafsteinn Gísli Valdimarsson í Njarðvík er leikmaður þriðju umferðar 2. deildar karla. Þessi tvítugi leikmaður skoraði tvívegis þegar Njarðvíkingar unnu 3-0 útisigur gegn KV síðasta föstudagskvöld.

Mörkin þrjú komu öll seint í leiknum, Hafsteinn braut ísinn á 77. mínútu og skoraði þriðja mark leiksins rétt fyrir leikslok. Hann telur sigurinn hafa verið sanngjarnan.

„Já, að mínu mati. Mér fannst við alltaf vera með leikinn í okkar höndum og þegar við brutum loks ísinn þá komu tvö í viðbót," segir Hafsteinn sem var að skora sín fyrstu meistaraflokksmörk í Íslandsmóti. Stefán Birgir Jóhannesson lagði bæði upp.

„Þau komu bæði eftir hornspyrnu, Stebbi teiknaði hann vel á kollinn á mér í bæði skiptin."

Njarðvíkingar eru með sex stig; unnu Hött í fyrstu umferð en töpuðu svo fyrir ÍR þar sem eina mark leiksins kom úr vítaspyrnu í blálokin.

„Við erum þokkalega sáttir með byrjunina á mótinu. Hefðum viljað fá meira út úr leiknum gegn ÍR heima en vorum kannski sjálfum okkur verstir þar," segir Hafsteinn en telur hann að liðið geti barist um að komast upp?

„Okkur eru allir vegir færir ef við höldum áfram að spila eins og við höfum gert. Við erum að gefa fá færi á okkur og erum fastir fyrir. Síðan er sóknarleikurinn er hægt og bítandi að verða betri. En við erum alveg niðri á jörðinni þrátt fyrir fína byrjun og tökum einn leik í einu."

Hafsteinn kemur á láni frá ÍBV en hvernig kom það til að hann fór í Njarðvík?

„Það var nú aðallega til þess að fá meiri spiltíma. Mér bauðst að fara á lán til KFS heima líkt og ég gerði í fyrra en mig langaði að spila á hærra leveli. Stjórn og þjálfarar ÍBV sýndu mér fullan skilning hvað það varðar," segir Hafsteinn.

Sjá einnig:
Bestur í 2. umferð - Viktor Örn Guðmundsson (KV)
Bestur í 1. umferð - Viktor Smári Segatta (Grótta)
Athugasemdir
banner
banner
banner