Olise, Branthwaite, Gutierrez, Guimaraes, Zubimendi og fleiri góðir í slúðurpakka dagsins
   þri 25. ágúst 2015 13:00
Magnús Már Einarsson
Atli Már: Vorum ákveðnir í að liðið færi upp
Atli Már Rúnarsson.
Atli Már Rúnarsson.
Mynd: Fótbolti.net - Sævar Geir Sigurjónsson
Orri Freyr Hjaltalín.
Orri Freyr Hjaltalín.
Mynd: Fótbolti.net - Sævar Geir Sigurjónsson
Magni frá Grenivík hefur gjörsamlega rúllað upp 3. deildinni í sumar. Liðið er taplaust og hefur unnið þrettán af fimmtán leikjum í sínum í sumar. Liðið hefur því nú þegar tryggt sér sigur í 3. deildinni.

Atli Már Rúnarsson er þjálfari Magna en hverju þakkar hann þennan magnaða árangur í sumar?

„Ég þakka fyrst og fremst góðum leikmanna og hópi sem hefur verið mjög einbeittur frá því við byrjuðum í nóvember í fyrra," sagði Atli Már í viðtali við Fótbolta.net í dag en Magni fagnar 100 ára afmæli sínu í ár.

„Með lið eins og Magna þá eru oft miklar breytingar á milli ára á leikmannahópi. Á þessu tímabili fengum við til okkar marga nýja leikmenn sem aðlöguðust hópnum mjög hratt og það myndaðist strax góður mórall. Við vorum fljótir að slípa okkur saman á undirbúningstímabilinu og eftir það óx liðið jafnt og þétt."

„ Ég er virkilega ánægður hvernig til tókst og hvernig hlutirnir gengu upp hjá okkur. Í dag erum við að upplifa árangur erfiðisins en til að ná svona árangri þurfa leikmenn og þjálfarar að eiga gott samstarf og leggja sig alla fram."

„Markmiðin voru skýr frá upphafi að minni hálfu og stjórnarinnar og við vorum ákveðnir í að liðið færi upp. Ég vil einnig geta þess að ég er gríðalega ánægður með þá leikmenn sem fyrir voru og þann liðstyrk sem liðið fékk á tímabilinu og gaman að sjá hvernig þessi hópur þróaðist og varð sterkur og einbeittur fljótt og þeir stefndu allir í sömu átt."


Þáttur Orra gríðarlega mikilvægur
Orri Freyr Hjaltalín er einn af leikmönnunum sem komu til Magna fyrir tímabilið. Orri er spilandi aðstoðarþjálfari hjá Magna og einnig markahæsti maður liðsins í sumar með átta mörk.

„Hann hefur sannarlega veitt liðinu góðan styrk og það va gaman að fá hann til liðs við Magna. Orra þekki ég vel frá fyrri tíð þar sem við spiluðum saman í Þór á sínum tíma, þannig að ég vissi nákvæmlega hverslags leikmann ég var að fá í liðið."

„Hann hefur einnig reynst mér vel sem aðstoðarþjálfari á þessari leiktíð og við náum vel saman enda erum við mjög líkir sem leikmenn hvað hugarfar og keppnisskap varðar. Hans þáttur hefur verið gríðarlega mikilvægur enda frábær leikmaður og gefur mikið af sér til strákanna."


Engar ákvarðanir með framhaldið
Mikil spenna er í baráttunni um 2. sætið í 3. deildinni. Reynir Sandgerði er fjórum stigum á undan Völsungi en Húsvíkingar eiga leik inni gegn Magna í kvöld. „Ég spáði því í upphafi móts að Völsungur færi upp og ég held mig við þá spá. En það verður gríðarlega spennandi að fylgjast með endasprettinum hvort það verður Reynir eða Völsungur sem fylgja okkur upp."

Atli Már reiknar með að hópurinn hjá Magna verði svipaður í 2. deildinni næsta sumar en hann hefur sjálfur ekki tekið ákvörðun um framhaldið.

„Samningurinn minn rennur út í haust, en ég hef engar ákvarðanir tekið varðandi þau mál að svo stöddu. Núna er maður bara að njóta þess að hafa unnið þessa deild með liðinu og það er virkilega góð tilfinning og ég ætla ekkert að láta eitthvað vera trufla það á meðan. Hvað leikmenn varðar þá finnst mér líklegt að menn verði áfram og fylgi þessum frábæra árangri eftir næstkomandi tímabil í 2. deild," sagði Atli að lokum.
Athugasemdir
banner