Sancho vill ekki snúa aftur til Man Utd - Dumfries vill fara til Man Utd - Chelsea vill Osimhen
banner
   þri 26. mars 2013 17:00
Jóhann Ólafur Sigurðsson
Pistill: Pistlar á Fótbolta.net eru viðhorf höfundar og þurfa ekki endilega að endurspegla viðhorf vefsins eða ritstjórnar hans.
Ejub er kennari
Jóhann Ólafur Sigurðsson
Jóhann Ólafur Sigurðsson
Ejub Purisevic er oft líflegur á hliðarlínunni.
Ejub Purisevic er oft líflegur á hliðarlínunni.
Mynd: Fótbolti.net - Sævar Geir Sigurjónsson
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Heimavöllur Sindra.
Heimavöllur Sindra.
Mynd: Þorsteinn Jóhannsson
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Magnús Már Einarsson
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Eyjólfur Garðarsson
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Jóhann Ólafur Sigurðsson, markvörður Selfyssinga, skrifaði ritgerð um aðkomu og áhrif júgóslavneskra leikmanna á knattspyrnumenningu Íslands. Með hans leyfi birtum við hér hluta úr ritgerðinni þar sem fjallað er um Ejub Purisevic og þjálfun hans hjá Sindra og Víkingi Ólafsvík.

Ejub stýrði Víkingi Ólafsvík upp í Pepsi-deildina í fyrra og verður spennandi að sjá liðið í deild þeirra bestu.



Ejub Purisevic kom hingað til lands árið 1992, ásamt Zoran Daníel Ljubicic, og samdi við fjórðu deildar lið HK. Þeir félagar voru gríðarlegur liðsstyrkur fyrir lið HK, og skoraði Ejub sjálfur til að mynda 29 mörk fyrir liðið í 17 leikjum en liðið vann alla leiki sína þetta sumarið.

Ejub spilaði einnig með Sindra fyrstu ár sín sem þjálfari og minnist Hjalti Vignisson þess sérstaklega hversu góður leikmaður Ejub var:

„Fyrstu kynni mín af Ejub voru sú að maður sá strax hvað hann var rosalega góður í fótbolta. Hann var frábær! Rosalega teknískur, sterkur, snarpur. Hann var kannski meiri „playmaker" (e. leikstjórnandi) en „striker senter”.

Þrátt fyrir góðan árangur Ejubs sem leikmanns þá hefur helst vakið athygli á Íslandi fyrir velgengni sína sem þjálfari. Ejub tók við liði Sindra frá Hornafirði, ásamt því að spila með þeim, fyrir sumarið 1994. Þar náði hann strax góðum árangri á sínu fyrsta tímabili.

Liðið var ekki langt frá því að komast upp í þriðju deild, en féll út í átta liða úrslitum fjórðu deildar eftir tap heima og að heiman gegn Leikni frá Reykjavík. Þess má geta að Ejub sjálfur varð markahæstur í deildinni með 17 mörk í 12 leikjum

Ári síðar komst liðið skrefinu lengra. Þá vann það riðil sinn nokkuð örugglega, með tólf stiga forskoti á næsta lið en féll síðan út í undanúrslitum úrslitakeppninnar gegn Reyni frá Sandgerði.

Hjalti Þór Vignisson, núverandi bæjarstjóri Hornafjarðar, lék þarna sitt fyrsta tímabil með meistaraflokki Sindra. Hjalti segir að allt hafi breyst með komu Ejubs á Hornafjörð:

„Það fyrsta sem maður sá var að æfingarnar breyttust. Bæði var ákafinn miklu, miklu meiri, það var keppt um á líf og dauða og síðan fór hann að þjálfa þannig að menn áttu að vera tilbúnir í allt mögulegt. Mjög stífar þrekæfingar til dæmis. Svo bara byrjaði hann að kenna fótbolta. Ejub byrjaði kennslu sína í fótbolta hjá Sindra algerlega frá grunni, þrátt fyrir að hann hafi verið að þjálfa fullorðna menn," segir Hjalti.

„Það var eitt sem ég man sérstaklega eftir. Þá var ég búinn að vera hjá honum í 2-3 ár. Við tókum aukaæfingu, hann stillti upp nokkrum keilum úti á velli, en þetta var í hádeginu. Hann setti upp í rauninni hvernig varnarmenn myndu standa og fleira, og síðan sagði hann mér bara hvernig ég ætti að hlaupa. Hann var með boltann og ég átti að hlaupa á milli keilanna. Svo var hann að senda á milli keilanna og sýna mér hvernig boltinn myndi koma og hvar varnarmennirnir myndu þá standa og svo framvegis."

„Í leiknum þar á eftir, ég man alltaf eftir þessu, þá kom upp svona staða. Það var reyndar aukaspyrna úti á velli. Þá tók ég hlaup, út frá kanti, og hugsaði um varnarmennina sem keilur og hljóp þarna á milli þeirra, fékk boltann og var felldur inni í vítateig svo við fengum víti. Svo kom kallinn strax til mín: „Sjáðu það borgar sig stundum að eyða hádeginu í að æfa sig."

Sumarið 1996 tókst liðinu loks að komast upp í aðra deild. Eftir þetta tímabil hætti Ejub með Sindra, og spilaði árið 1997 með Reyni Sandgerði og Fylki. Sindramenn náðu sér aldrei á strik í annarri deildinni þetta árið og féllu niður í þriðju deild, eftir að hafa lent neðstir í deildinni og aðeins náð að hala inn sjö stig í 18 leikjum

Ejub tók að nýju við liði Sindra árið 1998 og á þeim tíma fór liðið beint upp í aðra deild að nýju. Sindri hélt sigurgöngu sinni áfram í annarri deildinni ári síðar, en liðið lenti þar í öðru sæti og komst því í fyrsta skipti upp í fyrstu deild. Þessi árangur kom mörgum í opna skjöldu, eins og vel sést á skrifum Víðis Sigurðssonar:

„Sindri kom langmest á óvart því ekki hafði verið búist við öðru af nýliðunum en að þeir héldu velli um miðja deild. En þeir gerðu gott betur. Hornfirðingar hafa byggt upp sterkan kjarna ungra og efnilegra heimamanna, og náð í öfluga Bosníumenn í lykilstöður. Sindri fékk aðeins á sig 7 mörk og vörn og markvarsla voru lykilþættirnir á bakvið þennan óvænta árangur."

Sindramenn komu vissulega á óvart í deildinni en árangur þeirra í bikarkeppninni var öllu ótrúlegri. Liðið komst í fyrsta sinn í átta liða úrslit, þar sem það þurfti að lúta í gras gegn ÍBV, 0-3.

Þetta var engu að síður frábær árangur, besti árangur liðs í annarri deild í bikarkeppni frá upphafi. Ejub hætti störfum hjá Sindra eftir tímabilið og tók við liði Valsmanna í Reykjavík. Sá árangur sem hann náði með lið Sindra verður að teljast ótrúlegur, í ljósi þess hverjar aðstæður til knattspyrnuiðkunar voru á þessum tíma á Hornafirði.

„Það var einn fótboltavöllur, lélegur malarvöllur og lítið íþróttahús þegar hann var þarna. Það voru engar aðstæður en samt var þetta í rauninni besta Sindraliðið sem hefur nokkurn tímann verið til, sem var búið til upp úr því að hann kemur. Hann fær reyndar líka aðra leikmenn frá Bosníu, sem eru mjög góðir, en samt sem áður býr hann til kjarnann í liðinu," segir Hjalti.

Undir stjórn Ejubs var lið Sindra þekkt fyrir sterkan varnarleik, þar sem allir sem einn vörðust inni á vellinum. Þetta sést best ef borin er saman tölfræði yfir það hversu mörg mörk liðið fékk á sig undir hans stjórn og síðan eftir að hann var farinn. Þegar litið er á tímabilin fimm sem Ejub þjálfaði fékk Sindri á sig 97 mörk í 83 deildarleikjum, þ.e. aðeins 1,12 mörk að meðaltali í leik. Það fékk á meðan á sig að meðaltali 3,56 mörk í þeim 18 deildarleikjum sem það spilaði árið 1997, þegar Ejub hafði tekið sér frí frá þjálfun liðsins.

Til Ólafsvíkur
Ejub var í lok árs 2002 ráðinn þjálfari HSH á Snæfellsnesi, en liðið lék þá í þriðju deild. Árið áður hafði liðið endað í næstneðsta sæti riðils síns og því ekki um auðugan garð að gresja fyrir Ejub þegar hann tók við liðinu. Ýmislegt breyttist þó eftir að Ejub tók við liðinu, en fljótlega eftir komu hans varð ljóst að Víkingar frá Ólafsvík myndu taka við af HSH í þriðju deildinni,

Viðsnúningur liðsins á fyrsta tímabili Ejubs var mikill. Liðið fór taplaust í gegnum riðil sinn, sigraði 11 leiki af 14 og gerði þrjú jafntefli, ásamt því að leggja Leikni frá Reykjavík í úrslitaleik úrslitakeppninnar. Því voru Víkingar komnir úr neðstu deild í fyrsta sinn frá 1985, þegar liðið féll þangað.

Með komu Ejubs til Ólafsvíkur breyttist umhverfið í kringum knattspyrnuna mikið. Gunnar Örn Arnarsson segir að allt hafi gjörbreyst við komu hans:

„Ég segi nú kannski ekki að við höfum verið algert sveitalið, en þetta fer strax við komu hans úr því að vera sæmileg umgjörð hjá 3. deildarliði í að vera eins og hjá 1. deildarliði. Sá standard sem hann kom með þá hefur haldist, það er alltaf bara sama rútínan. Öllu meiri fagmennska en var. Það voru nýkomnir inn nýjir stjórnarmenn, það voru búin að vera pínu ör stjórnarskipti. Hann fékk þá bara í lið með sér, það var alveg frá a-ö breyting á öllu, alveg sama hvort það var fótbolti eða eitthvað annað, mataræði, það var allur pakkinn," segir Gunnar.

Einn af þeim lykilþáttum sem Ejub kom með inn í félagið þegar hann tók við þjálfun þess var agi. Agi er ótrúlega mikilvægur fyrir alla, og þá sérstaklega íþróttamenn, enda getur munurinn á milli sigurs og taps verið lítill.

Með metnaðarfyllra umhverfi var kominn stökkpallur til frekari árangurs og Víkingar hægðu ekkert á ferðinni við komuna í aðra deild og voru allt sumarið í toppbaráttu, en eftir æsispennandi baráttu í síðustu umferðum mótsins endaði liðið í öðru sæti. Ejub hafði með þessu tekist að koma Víkingum upp um tvær deildir á sínum fyrstu tveimur árum með liðið.

Ólafsvíkingar enn á ný öllum á óvart og luku sumrinu um miðja 1. deild, í fimmta sæti sem var besti árangur liðsins frá upphafi. Víkingar héldu velli í deildinni næstu árin og varð liðið að reglulegum þátttakanda hennar, þrátt fyrir að lenda í töluverðu basli árin 2006 og 2007.

Ejub ákvað að taka sér frí frá þjálfun liðsins árið 2009 eftir að hafa stýrt því samfleytt frá árinu 2002. Liðið byrjaði tímabilið vel undir stjórn Kristins Guðbrandssonar, fékk sex stig úr fyrstu tveimur leikjunum, en hlaut aðeins sjö stig í viðbót úr hinum 20 leikjunum og féll liðið því nokkuð örugglega niður í aðra deild.

Svo virðist sem Ólafsvíkingar hafi saknað Ejubs mikið í fjarveru hans. Liðið, undir hans stjórn, hafði árið áður aðeins fengið á sig 29 mörk í 22 leikjum í deildinni en fékk sumarið 2009 á sig heil 54 mörk í 22 leikjum, sem er aukning upp á 86% milli ára.

Gunnar Örn Arnarsson, fyrrum leikmaður liðsins og núverandi stjórnarmaður, segir að erfitt hafi verið að fylla skarð Ejubs þegar hann tók sér frí frá þjálfun:

„Það breyttust ýmsir hlutir, eins og með aga og annað slíkt. Við fengum mann sem var að byrja þjálfaraferill sinn og var kannski meira að einblína á það að vera vinur leikmanna og annað slíkt, en Ejub hafði alltaf gert öllum ljóst áður að hann væri ekki vinur, heldur þjálfari þinn. Það var margt sem var losaralegt hvað varðar agann."

Ejub tók hins vegar á ný við liðinu eftir lok sumars 2009, eftir að liðið hafði fallið niður í aðra deild. Ólafsvíkingar fóru á kostum 2010, unnu 18 af 22 leikjum ásamt því að gera fjögur jafntefli, fengu aðeins á sig 19 mörk í þessum 22 leikjum og voru eitt af liðum ársins.

Ejub Purisevic tók við liðinu á ný eftir árshlé, vængbrotnu eftir fall úr 1. deildinni og með fámennan hóp. Hann náði að púsla í götin og búa til sterka liðsheild þar sem í bland voru ungir og efnilegir heimapiltar, lánsmenn að sunnan og erlendir leikmenn. Liðið var því komið á ný í fyrstu deild eftir eins árs hlé.

Ólafsvíkingar fylgdu eftir yfirburðarsigri sínum í annarri deildinni með því að ná sínum besta árangri frá upphafi, fjórða sæti í næstefstu deild. Í fyrra lenti liðið svo í öðru sæti og var níu stigum á undan næsta liði, Þrótti frá Reykjavík.

Annað árið í röð náði liðið sínum besta árangri frá upphafi og spilar liðið í fyrsta sinn í efstu deild sumarið 2013.

Það hafa átta félög, að Ólafsvíkingum meðtöldum, farið úr neðstu deild í þá efstu, en það sem gerir árangur Víkinga sérstakan er sú staðreynd að Ejub er fyrsti þjálfarinn sem fer með sama félag í gegnum allar deildirnar.

Lið Ejubs hafa ávallt haft yfir að skipa sterkum erlendum leikmönnum, en í heildina hafa 28 leikmenn af erlendu bergi brotnir spilað með Ólafsvíkingum undir stjórn Ejub. Það þýðir hins vegar ekki að Ejub hafi vanrækt heimamennina, en hann hefur ávallt sinnt yngri flokka starfinu í Ólafsvík með mikilli ánægju:

„Hann sér um þá, hann er á æfingum hjá öllum flokkum upp til meistaraflokks. Það er gaman að segja frá því, en það eru ekkert allir foreldra sem fíla það, það er sami agi hjá yngri flokkunum og er hjá meistaraflokknum. Það er ekkert humm og ha með það."

Ejub var þekktur fyrir að kenna knattspyrnu frá grunni þegar hann þjálfaði Sindra á Hornafirði, og hann hefur augljóslega haldið því áfram í Ólafsvík. Gunnar Örn telur að fáir þjálfarar hafi yfir aðráða jafn góðri grunnþjálfun og Ejub, að minnsta kosti miðað við þá þjálfara sem áður höfðu verið í Ólafsvík. Einar Hjörleifsson, markvörður liðsins, tekur í sama streng:

„Hann gefur sér meiri tíma, það er ekki bara æfingin, hann tekur kannski framherjana bara eftir æfingu og þá taka þeir bara til dæmis 10 skalla eða 10 skot, hann er svolítið í því. Það mætti segja að hann væri meira „professional" að því leyti að hann sjálfur er einhvern veginn bara fótbolti. Það er ekkert annað en fótbolti. Það snýst allt um fótbolta. Hann sér ýmisleg smáatriði sem maður sjálfur sér ekki. Hann hefur bætt margan manninn, hann er kennari." segir Einar.



Smelltu hér til að lesa ritgerðina í heild sinni
Athugasemdir
banner
banner
banner