Keflvíkingurinn Gabríel Aron Sævarsson er formlega genginn í raðir Breiðabliks frá Keflavík.
Breiðablik staðfesti mánudaginn 14. júlí að Gabríel væri búinn að skrifa undir þriggja ára samning sem tæki gildi eftir tímabilið.
Gabríel, sem er 19 ára gamall, var lykilmaður í liði Keflavíkur í sumar og spilaði sinn fyrsta landsleik í síðasta mánuði er hann kom inn af bekknum í 3-1 tapi U19 ára landsliðsins gegn Englendingum.
Það kom mörgum á óvart að Gabríel hafi ekki verið í hópnum hjá Keflvíkingum gegn Fjölni í gær, en eftir leikinn var greint frá því hér á Fótbolta.net að stjórnin hefði tekið ákvörðun um að flýta fyrir skiptunum.
„Af minni hálfu og teymisins þá vildum við fyrst og fremst hafa hann hjá okkur og hefðum ekki viljað selja hann eða að hann færi í annað félag. Við héldum að hann væri að fara í skóla erlendis þar til fyrir stuttu þegar það kom upp að af því yrði ekki. Hann er svo samningslaus eftir tímabilið og öðrum liðum frjálst að tala við hann eins og gengur og gerist og hann ákveður að skipta í Breiðablik.“
„Stjórn kemur að því þannig að það sé best fyrir alla aðila að hann þá bara skipti strax yfir og mér skilst að það sé verið að klára það,“ sagði Haraldur Freyr Guðmundsson, þjálfari Keflvíkinga, við Fótbolta.net í gær.
Hann er nú kominn með leikheimild með Blikum og því leyfilegt að skrá hann í hópinn er liðið mætir Vestra í Bestu deildinni klukkan 14:00 í dag.
Athugasemdir