Olise, Branthwaite, Gutierrez, Guimaraes, Zubimendi og fleiri góðir í slúðurpakka dagsins
banner
   mán 11. maí 2015 17:00
Magnús Már Einarsson
Bestur í 1. deild: Hefði haldið að menn myndu sýna smá lit
Leikmaður 1. umferðar - Orri Gunnarsson (Fram)
Orri fagnar marki á laugardaginn.
Orri fagnar marki á laugardaginn.
Mynd: Fótbolti.net - Sævar Geir Sigurjónsson
Orri skorar fyrra mark sitt.
Orri skorar fyrra mark sitt.
Mynd: Fótbolti.net - Sævar Geir Sigurjónsson
„Fyrirfram og eftir fyrri hálfleik þá hefðum við alveg tekið eitt stig en í lokin var þetta helvíti svekkjandi. Við spiluðum ekki nógu vel í fyrri hálfleik en við sýndum karakter í þeim seinni," sagði Orri Gunnarsson miðjumaður Fram við Fótbolta.net í dag.

Orri er leikmaður 1. umferðar í 1. deildinni en hann átti frábæran dag þegar Fram gerði 3-3 jafntefli gegn KA á útivelli. Fram var 2-0 undir í hálfleik en Orri skoraði tvívegis og lagði upp eitt mark í endurkomu Fram í síðari hálfleiknum.

Framarar komust í 3-2 áður en KA jafnaði í lokin. KA er spáð toppsætinu í sumar en Framarar setja einnig markið hátt.

„Við stefnum auðvitað á toppbaráttuna. Það er ekkert launungarmál að við ætlum upp. Við erum með flottan hóp. Þetta var erfitt í vetur þegar við vorum að púsla liðinu saman en það er komin fínasta mynd á hópinn núna og mér líst vel á þetta."

Erfitt að búa alltaf til nýtt lið
Orri er uppalinn Framari og hann hefur kynnst ansi mörgum nýjum liðsfélögum undanfarin tvö ár þar sem leikmannaveltan hefur verið mikil hjá þeim bláklæddu.

„Það er erfitt að vera alltaf að búa til nýtt lið. Það er ekkert spennandi. Þetta eru allt flottir strákar sem hafa komið en það er erfitt að vera alltaf að skipta um liðsfélaga. Maður reynir bara að gera sitt besta og hjálpa liðinu," sagði Orri en mikill flótti varð frá Fram eftir fall úr Pepsi-deildinni í fyrrahaust.

„Þetta er búið að vera erfitt. Í fyrra ætluðum við að byggja upp á ungu liði og þetta var sett upp sem þriggja ára plan. Það var alveg möguleiki að við myndum falla og ég hefði haldið að menn myndu sýna smá lit og halda tryggð við liðið sem þeir voru að semja við. Það var vitað fyrirfram að þetta var þriggja ára plan. Menn eru kannski meira að horfa á sjálfan sig en liðið."

Uppalinn í Fram heimilinu
Orri segir að það hafi aldrei hvarflað að sér að fylgja í fótspor margra annarra leikmanna og yfirgefa Fram síðastliðið ahust. „Ég er blár í gegn. Ég var ekkert á leiðinni burt. Þetta er mitt lið. Ég er nánast uppalinn í Fram-heimilinu, það er mitt annað heimili."

Fram mun í sumar færa heimavöll sinn af Laugardalsvelli yfir á gervigrasið í Úlfarsárdal en þar er framtíðarsvæði félagsins.

„Ég verð að viðurkenna að ég er meiri grasmaður en gervigras. Þetta er gott gervigras þarna upp frá og mér líst bara vel á þetta. Það hefði verið sérstakt að spila á Laugardalsvelli með 500 manns á vellinum og það er stefnan að búa til vígi þarna upp frá," sagði Orri.
Athugasemdir
banner
banner
banner