Olise, Branthwaite, Gutierrez, Guimaraes, Zubimendi og fleiri góðir í slúðurpakka dagsins
   fös 10. mars 2017 15:15
Elvar Geir Magnússon
Viðtal
Ármann Smári: Þarf núna að haga mér eins og maður
Ármann hefur lagt skóna á hilluna.
Ármann hefur lagt skóna á hilluna.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Fyrir framan áhorfendabrekkuna á Akranesi.
Fyrir framan áhorfendabrekkuna á Akranesi.
Mynd: Fótbolti.net - J.L.
Það verður sjónarsviptir af varnarmanninum öfluga Ármanni Smára Björnssyni sem hefur ákveðið að leggja skóna á hilluna í kjölfarið á erfiðum meiðslum.

Ármann er 36 ára og hefur átt viðburðaríkan feril en undanfarin ár hefur hann verið algjör lykilmaður í vörn ÍA. Hann segir að það sé vissulega furðulegt að hugsa til þess að þessum kafla sé lokið hjá sér.

„Maður veit aldrei, kannski fær maður bakþanka og hættir við að hætta. En án alls gríns þá er tilfinningin mjög sérstök. Maður hefur verið í þessu lengi. Það hefur tekið smá tíma að ákveða þetta og svo á ákvörðunin eftir að síast inn. Maður tók tíma í að ræða þetta og hrökkva í og úr gír. Maður lokar ekki algjörlega á neitt. Það getur vel verið að maður fari að sprikla einhverstaðar einn daginn," segir Ármann sem segir að erfiðast sé að fara úr félagsskapnum sem fylgir því að vera í boltanum.

„Það er mjög sárt að kveðja strákana og fá ekki að hitta þá á hverjum degi. Svo þarf maður að fara að haga sér eins og maður, nú getur maður ekki sagt hvað sem er eins og maður gerði í klefanum. Það verður erfitt. Tilfinningin er skrítin og verður örugglega enn erfiðari þegar nær dregur móti."

Ármann segir að hann geti verið sáttur með sín síðustu ár í boltanum þar sem hann hefur leikið virkilega vel með Skagamönnum. „Ég væri reyndar til í að hafa aðeins betri hásin núna en hún er öll að koma til," segir Ármann.

Ferillinn eins og rússíbani
Á ferli sínum lék Ármann sex landsleiki fyrir Ísland. Hann er uppalinn hjá Sindra á Höfn í Hornafirði en gekk ungur til liðs við Val. Hann spilaði síðan með FH áður en hann fór út í atvinnumennsku þar sem hann lék með Brann í Noregi og Hartlepool á Englandi.

„Ég varð Noregsmeistari og það er eitthvað sem er helvíti fínt að hafa á blaði. Ferillinn var upp og niður. Maður hefur bæði átt mjög góð tímabil og svo hefur maður líka átt ömurleg tímabil. Þetta hefur verið rússíbani."

Ármann segir að þjálfun sé ekki eitthvað sem kitli hann eins og staðan er og hann er óviss hvort hann verði áfram tengdur boltanum.

„Ég hef ekkert pælt í því. Þetta er ákvörðun sem maður er búinn að taka og nú fer maður að sinna fjölskyldu og vinum. Maður kíkir kannski í heimsóknir hingað og þangað, fer til fólks sem maður gleymir stundum. Þjálfunin hefur ekki náð til mín en kannski dettur það inn, kannski er maður ekki með rétta skapið í þetta," segir Ármann.

Hann telur að framtíð ÍA sé björt enda urmull af uppöldum ungum leikmönnum að spila með liðinu.

„Framtíðin er björt ef rétt er haldið utan um þessa stráka sem eru af Skaganum. Þetta gæti orðið flott hjá þeim. Mér finnst almennt að það eigi ekki að dæla inn svona mörgum útlendingum í deildina. Það á að gefa íslenskum strákum tækifæri og það eru Skagamenn að gera. Vonandi halda þeir því áfram," segir Ármann Smári Björnsson.

Hér að neðan má sjá nokkrar myndir frá ferli Ármanns úr myndagrunni Fótbolta.net.
Athugasemdir
banner
banner