Olise, Branthwaite, Gutierrez, Guimaraes, Zubimendi og fleiri góðir í slúðurpakka dagsins
   sun 17. mars 2024 08:30
Ívan Guðjón Baldursson
Moyes og Guardiola hafa trú á Kalvin Phillips
Mynd: West Ham
Enski miðjumaðurinn Kalvin Phillips er að ganga í gegnum erfiðan kafla á ferli sínum sem atvinnumaður í fótbolta þar sem byrjunin á dvöl hans hjá West Ham United hefur verið hörmuleg.

Phillips var hjá Manchester City í eitt og hálft ár án þess að takast að ryðja sér leið inn í byrjunarliðið og er hann núna hjá West Ham á lánssamningi út tímabilið.

David Moyes, þjálfari West Ham, hefur trú á að Phillips muni finna taktinn í London og koma sterkur inn á lokakafla tímabilsins. Phillips er búinn að missa sætið sitt í enska landsliðshópnum og þarf að standa sig vel í enska boltanum næstu vikurnar til að eiga möguleika á að vera valinn í hópinn hjá Gareth Southgate.

„Hann er frábær einstaklingur sem er ólmur í að læra og verða að betri fótboltamanni. Ég spjalla reglulega við hann og ég minnti hann á það um daginn að það er engin tilviljun að hann sé búinn að spila 31 A-landsleik fyrir England og að besti þjálfari heims hafi keypt hann fyrir 18 mánuðum síðan. Ég sé að hann vantar smá sjálfstraust og þegar það er komið þá verður hann frábær," segir Moyes.

„Hann þarf bara að halda áfram að leggja allt í sölurnar og þá mun þetta smella saman. Hann þarf bara að skora mark eða eitthvað álíka til að auka sjálfstraustið. Hann er góður strákur og frábær fótboltamaður, það leikur ekki vafi á því."

Pep Guardiola sagði svipaða hluti þegar hann var spurður út í Kalvin Phillips fyrir helgi.

„Kalvin er frábær manneskja og flottur fótboltamaður, ég er sannfærður um að hann muni fá annað tækifæri með enska landsliðinu," sagði Guardiola meðal annars.
Athugasemdir
banner