Olise, Branthwaite, Gutierrez, Guimaraes, Zubimendi og fleiri góðir í slúðurpakka dagsins
   þri 19. mars 2024 08:30
Ívan Guðjón Baldursson
Tindastóll fær mikinn liðsstyrk (Staðfest)
Mynd: Tindastóll
Mynd: Tindastóll
Meistaraflokkur karla hjá Tindastóli er að styrkja sig fyrir komandi átök í 4. deildinni og hefur bætt nokkrum öflugum leikmönnum við sig sem búa yfir góðri reynslu.

Markvörðurinn Nikola Stoisavljevic mun spila með félaginu í sumar en hann var samningslaus eftir að hafa varið mark KFA í 2. deildinni í fyrra.

Nikola stóð sig gríðarlega vel og var valinn besti markvörður 2. deildar en tókst ekki að semja við KFA um nýjan samning.

Hann er búinn að gera tveggja ára samning við Tindastól og mætir á Sauðárkrók í byrjun apríl.

Þá er David Bjelobrk einnig genginn í raðir félagsins en hann leikur sem sóknarmaður og spilaði 8 leiki fyrir Ægi í Lengjudeildinni í fyrra, án þess að skora.

Bjelobrk lék með Panelefsiniakos í C-deild gríska boltans áður en hann flutti til Íslands.

Báðir eru leikmennirnir 26 ára gamlir og með serbneskt ríkisfang.

Að lokum tókst Stólunum að krækja í 25 ára gamlan sóknarmann úr bandaríska háskólaboltanum. Sá heitir David Bercedo og lék fyrir þrjú mismunandi lið í háskólaboltanum.

Bercedo er Spánverji uppalinn í Madríd sem byrjaði feykilega vel í háskólaboltanum þar sem hann raðaði inn mörkunum með Ohio Valley háskólanum.

Hann gekk svo til liðs við Quinnipiac háskólann og var lykilmaður þar áður en hann skipti til University of North Carolina, en átti erfitt uppdráttar á sínu lokaári.

Ljóst er að David gæti gert magnaða hluti í íslensku 4. deildinni ef hann finnur svipaðan takt og á fyrstu árum háskólaboltans.

Hann kom til Íslands á föstudaginn og tók þátt í sínum fyrsta leik um helgina þegar Tindastóll sigraði Skallagrím í Lengjubikarnum.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner