Olise, Branthwaite, Gutierrez, Guimaraes, Zubimendi og fleiri góðir í slúðurpakka dagsins
banner
   fös 22. mars 2024 15:06
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
„Ekki setja í nefnd eða birta viljayfirlýsingu og taka mynd af sér"
Icelandair
Þorsteinn Halldórsson á Laugardalsvelli.
Þorsteinn Halldórsson á Laugardalsvelli.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Ísland hefur leik í undankeppni EM á Kópavogsvelli.
Ísland hefur leik í undankeppni EM á Kópavogsvelli.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Frá Laugardalsvellinum.
Frá Laugardalsvellinum.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Fyrsti heimaleikur Íslands í undankeppni Evrópumóts kvenna mun fara fram á Kópavogsvelli. Stelpurnar taka á móti Póllandi þann 5. apríl næstkomandi en ekki er hægt að spila á Laugardalsvelli þar sem hann verður ekki tilbúinn á þeim tíma.

Síðasti heimaleikurinn hjá stelpunum okkar var á Kópavogsvelli í febrúar en þá spilaði Ísland úrslitaleik við Serbíu um að halda sér í A-deild Þjóðadeildarinnar. Sá leikur þurfti að fara fram 14:30 á þriðjudegi þar sem fljóðljósin eru ekki nægilega sterk á vellinum að mati UEFA.

Þorsteinn Halldórsson, landsliðsþjálfari Íslands, var spurður út í það á fréttamannafundi í dag hvernig sér litist á það að spila aftur á Kópavogsvelli. Steini á góðar minningar þaðan eftir að hafa gert frábæra hluti með Breiðabliki áður en hann tók við landsliðinu.

„Þetta er svolítið tvíbent. Mér hefur alltaf liðið ágætlega á Kópavogsvelli. Það skrítnasta við það núna er að ég hafði engin lyklavöld. Ég þurfti alltaf að biðja einhvern að opna fyrir mig," sagði Þorsteinn léttur. „En auðvitað eru ákveðin vonbrigði að það séu ekki gerðar hærri kröfur í kvennaboltanum."

„Við þurfum að fá undanþágu til að spila þarna en þetta er bara niðurstaðan fyrir okkur. Ég held að það sé orðið ljóst að við þurfum að spila á öllum tímum á heimavelli og það er ekki draumastaða því við vitum aldrei hvernig veðrið verður. Kópavogsvöllur er fínn og reyndist okkur vel síðast. Margir leikmenn okkar hafa spilað og æft þarna reglulega. Og vonandi heldur hann áfram að gefa okkur sigra," sagði landsliðsþjálfarinn jafnframt.

Það er ekki hægt að spila á Laugardalsvelli á þessum tíma árs þar sem hann er ekki upphitaður. Aðstæðurnar eru ekki boðlegar fyrir lið sem ætlar að vera í fremstu röð í heiminum. Þorsteinn segir að það þurfi að taka ákvörðun og það þurfi að gera það fljótt.

„Auðvitað þurfum við bara betri aðstöðu. Það er númer eitt, tvö og þrjú. Hvernig sem við gerum það, þá er það bara einhver ákvörðun sem þarf að taka og fara í. Ég lít á það svoleiðis að við erum ekki að fara að fá þjóðarleikvang á næstunni. Ég er búinn að segja það að ég verð allavega orðinn ellilífeyrisþegi þegar nýr þjóðarleikvangur kemur, en við þurfum betri aðstöðu - hvort sem það er hérna eða annars staðar," segir Þorsteinn en þarf ekki bara breytt undirlag og hita á Laugardalsvöll?

„Það þarf að gera breytingu á grasinu hérna. Það er orðið gamalt og úr sér gengið. Við þurfum hita undir, sérstaklega eins og staðan er núna þegar við erum að fara að spila leiki yfir vetrarmánuðina. Við þurfum betri aðstöðu hérna inni líka. Ég held að það sé ljóst að það verði gerðar meiri kröfur í kvennaboltanum eftir ákveðin mörg ár og það eru ekki mörg ár í það. Þá erum við bara komin í þá aðstöðu að við þurfum að spila erlendis. Ekki flókið. Þetta er bara ákvörðun sem þarf að taka og framkvæma, ekki setja í nefnd eða gefa út viljayfirlýsingu og taka mynd af sér. Þetta þarf að framkvæma."

Leikir Íslands í undankeppni EM 2025:
Ísland - Pólland föstudaginn 5. apríl
Þýskaland - Ísland þriðjudaginn 9. apríl
Austurríki - Ísland föstudaginn 31. maí
Ísland - Austurríki þriðjudaginn 4. júní
Ísland - Þýskaland föstudaginn 12. júlí
Pólland - Ísland þriðjudaginn 16. júlí
Athugasemdir
banner
banner
banner