Lengjudeildarlið Þórs á Akureyri tilkynnti í gær að spænski varnarmaðurinn Juan Guardia Hermida sé genginn í raðir félagsins frá nágrönnunum í Völsungi.
Hann gerir tveggja ára samning við Þórsara og er þriðji leikmaðurinn sem félagið fær til liðs við sig frá því tímabilinu lauk. Áður höfðu komið þeir Ibrahima Balde frá Vestra og markverðirnir Franko Lalic (Dalvík/Reyni) og Víðir Jökull Valdimarsson (KH).
Juan er 22 ára gamall og hefur leikið á Íslandi undanfarin tvö ár með Völsungi og var í lykilhlutverki hjá Húsvíkingum þegar þeir fóru upp úr 2.deildinni síðasta sumar. Var Juan meðal annars valinn í lið ársins hjá Fótbolta.net.
Hann fékk sitt knattspyrnulega uppeldi hjá spænska stórveldinu Atletico Madrid þar sem hann fór upp í gegnum allt barna- og unglingastarf til 18 ára aldurs.
Juan er fjölhæfur varnarmaður sem hefur skorað sjö mörk í 44 leikjum hér á landi. Hann æfði með Þór á dögunum áður en hann hélt heim til Spánar í jólafrí og mun mæta aftur til Akureyrar í byrjun febrúar.
Sigurður Heiðar Höskuldsson þjálfar lið Þórs áfram komandi sumar en þeir enduðu í 10. sæti Lengjudeildarinnar í sumar.
Komnir
Ibrahima Balde frá Vestra
Franko Lalic frá Dalvík/Reyni
Víðir Jökull Valdimarsson frá KH
Jón Jökull Hjaltason frá Þrótti Vogum (var á láni)
Pétur Orri Arnarson frá Kormáki/Hvöt (var á láni)
Farnir
Aron Einar Gunnarsson til Katar
Birkir Heimisson í Val
Marc Sörensen
Aron Kristófer Lárusson
Alexander Már Þorláksson
Athugasemdir