Manchester City hefur áhuga á Douglas Luiz - Neymar er á leið heim í Santos - Chelsea er með 40 milljóna punda verðmiða á Trevoh Chalobah.
   mið 19. ágúst 2009 16:10
Magnús Már Einarsson
LU 1.d.: Yrði mikið fagnað af Haukum en bölvað af FH-ingum
,,Það hefur verið einhver smá orðrómur um að við færum okkur á Kaplakrikavöllinn.  Því yrði mikið fagnað af Haukunum en bölvað af FH-ingunum.
,,Það hefur verið einhver smá orðrómur um að við færum okkur á Kaplakrikavöllinn. Því yrði mikið fagnað af Haukunum en bölvað af FH-ingunum."
Mynd: Fótbolti.net - Andri Janusson
,,Eins og staðan er núna þá stefnum við á að sigra deildina því að við eigum þessi lið eftir.
,,Eins og staðan er núna þá stefnum við á að sigra deildina því að við eigum þessi lið eftir.
Mynd: Fótbolti.net - Hörður Snævar Jónsson
Mynd: Guðmundur Karl
Ásgeir Þór Ingólfsson var öflugur á miðjunni hjá Haukum þegar að liðið sigraði KA 3-1 í 1.deild karla í gær. Ásgeir er leikmaður 17.umferðar hér á Fótbolta.net.

Ásgeir Þór Ingólfsson
Ásgeir Þór er 18 ára miðju og kantmaður. Ásgeir er uppalinn hjá Haukum en hann steig sín fyrstu skref með meistaraflokki í 2.deild árið 2007. Það ár var hann valinn efnilegasti leikmaður deildarinnar en Ásgeir hefur verið fastamaður hjá Haukum undanfarin þrjú ár.
,,Ég átti fínan leik í gær. Ég var með ákveðið hlutverk varnar og sóknarlega. Ég átti að loka á Dean (Martin) þegar að hann fékk boltann og það gekk vel," sagði Ásgeir við Fótbolta.net í dag en Haukum gekk vel að eiga við KA-menn.

,,Þegar að þeir fengu boltann spörkuðu þeir upp í loftið og ætluðu að reyna að skora úr föstum leikatriðum en við vorum bara klókari en þeir."

Ásgeir skoraði sjálfur þriðja markið en það gerði hann með skoti fyrir utan vítateig í síðari hálfleiknum.

,,Það var rosalega gaman og þetta var mikilvægt mark. Ég lagði hann framhjá honum, ég er búinn að vera í stífum æfingum hjá Luka (Kostic) upp á síðkastið og það er að skila sér. Hann hefur tekið í gegn allan pakkann, skot, fyrirgjafir og móttökur."

Eftir sigurinn eru Haukar í 2.sæti, tveimur stigum á undan HK og einungis stigi á eftir toppliði Selfoss en síðarnefnda liðið tapaði gegn Þór í gær.

,,Ég bjóst við að þeir myndu tapa þessum leik og þetta verður ennþá skemmtilegra núna. Við eigum bæði Selfoss og HK eftir en við megum ekki missa okkur í þeim leikjum, við verðum að klára leikinn á undan."

Í fyrra misstu Haukar dampinn um mitt mót og leikmenn liðsins voru ákveðnir í að gera betur í ár.

,,Við áttum að gera miklu betur í fyrra, þá klúðruðum við þessu sjálfir og við vorum staðráðnir í að gera betur heldur en í fyrra og missa þetta ekki frá okkur," sagði Ásgeir sem segir þó að útlitið hafi ekki verið gott skömmu fyrir mót.

,,Mánuði fyrir mót vorum við átta á æfingum og það voru tíu meiddir. Þá var útlitið svart en svo komu menn inn í þetta og gáfu allt í þetta frá fyrsta leik. Við erum að mínu mati með eitt best spilandi liðið í þessari deild ef ekki það besta. Það eru þrjú lið sem eru best í þessari deild en þess fyrir utan er þetta mjög þéttur pakki."

Margir ungir strákar eru í Haukaliðinu í bland við reynslubolta en Ásgeir er sjálfur yngstur í byrjunarliðinu.

,,Það eru 75-80% af liðinu uppaldir strákar og þetta eru allt strákar sem eru aðeins eldri en ég, fæddir 86-88 og hafa spilað upp alla yngri flokkana saman. Ég kom síðan inn í þetta og smellpassa inn í þetta. Síðan er gott að hafa Amir (Mehica), Goran (Lukic) og Tóta (Þórhall Dan Jóhannsson) fyrir aftan okkur."

Haukar hafa undanfarin ár leikið heimaleiki sína á gervigrasvellinum að Ásvöllum en þar er aðstaðan ekki góð fyrir áhorfendur. Ásgeir segir að Haukar verði að bæta úr aðstöðunni ef þeir komast upp um deild.

,,Aðstaðan hjá okkur er ekki sú besta í boltanum í dag. Við erum ekki með stúku og erum að spila á gervigrasi og ég er sammála því að Haukar þurfa að virkilega að bæta aðstöðuna ef við ætlum að verða úrvalsdeildarklúbbur," sagði Ásgeir en Haukar gætu óvænt leikið heimaleiki sína næsta sumar hjá nágrönnunum í FH.

,,Það hefur verið einhver smá orðrómur um að við færum okkur á Kaplakrikavöllinn. Því yrði mikið fagnað af Haukunum en bölvað af FH-ingunum," sagði Ásgeir sem segir þó ennþá vera langt í land enda eru Selfoss og HK einnig að berjast um að komast upp.

,,Þetta er ekkert komið, það eru fimmtán stig í pottinum en eins og staðan er núna þá stefnum við á að sigra deildina því að við eigum þessi lið eftir," sagði Ásgeir að lokum.

Sjá einnig:
Leikmaður 16.umferðar - Gunnar Einarsson (Leiknir R.)
Leikmaður 15.umferðar - Gunnleifur Gunnleifsson (HK)
Leikmaður 14.umferðar - Þorsteinn V. Einarsson (ÍR)
Leikmaður 13.umferðar - Sigurður Helgi Harðarson (Afturelding)
Leikmaður 12.umferðar - Jakob Spangsberg (Víkingur R.)
Leikmaður 11.umferðar - Rúnar Már Sigurjónsson (HK)
Leikmaður 10.umferðar - Hörður Magnússon (HK)
Leikmaður 9.umferðar - Sævar Þór Gíslason (Selfoss)
Leikmaður 8.umferðar - Amir Mehica (Haukar)
Leikmaður 7.umferðar - Brynjar Hlöðversson (Leiknir R.)
Leikmaður 6.umferðar - Einar Ottó Antonsson (Selfoss)
Leikmaður 5.umferðar - Sævar Þór Gíslason (Selfoss)
Leikmaður 4.umferðar - Milos Glogovac (Víkingur R.)
Leikmaður 3.umferðar - Jóhann Benediktsson (Fjarðabyggð)
Leikmaður 2.umferðar - Andri Fannar Stefánsson (KA)
Leikmaður 1.umferðar - Ottó Hólm Reynisson (Þór)
Athugasemdir
banner
banner
banner