Napoli í viðræðum um Garnacho - Villa hafnaði tilboði West Ham í Duran - Vlahovic orðaður við Chelsea
   mán 13. júlí 2009 13:25
Magnús Már Einarsson
1.deild leikm umf.: Baggio hafði áhrif á framherjavalið
Mynd: Fótbolti.net - Magnús Már Einarsson
Mynd: Vilhjálmur Siggeirsson
Mynd: Vilhjálmur Siggeirsson
Mynd: Vilhjálmur Siggeirsson
Hörður Magnússon átti góðan leik í fremstu víglínu HK þegar að liðið lagði ÍA 2-1 í fyrstu deildinni síðastliðinn fimmtudag. Hörður lagði upp tvö mörk í leiknum en hann er leikmaður 10.umferðar hér á Fótbolta.net.

Hörður Magnússon
Hörður Magnússon er 23 ára gamall framherji sem er uppalinn hjá HK. Hann lék sinn fyrsta meistaraflokksleik með liðinu árið 2005. Árið 2007 meiddist Hörður fyrir mót og um sumarið fór hann til Ýmis og Völsungs á láni. Hann kom síðan aftur til HK þar sem hann hefur leikið undanfarin tvö ár en í sumar hefur hann átt fast sæti í byrjunarliðinu.
,,Maður er alltaf ánægður eftir sigurleik og sérstaklega eftir að hafa spilað á móti jafnsterku liði á móti Skaganum," sagði Hörður við Fótbolta.net í dag.

Bæði mörk HK í leiknum komu eftir að Hörður slapp í gegn og renndi boltanum til hliðar á mann fyrir opnu marki. Calum Bett skoraði fyrra markið og Aaron Palomares það síðara.

,,Það var eina rétta í stöðunni fyrst að þeir komu með manni í sóknina. Það tókst að leggja tvö mörk upp í þetta skipti þó að maður hafi ekki skorað sjálfur. Auðvitað er alltaf gaman að skora en þetta er spurning um að liðið vinni leikinn þannig að maður verður að vera hæverskur í þessu."

Hörður var í láni hjá Völsungi í 2.deildinni sumarið 2007 og í fyrra náði hann að komast betur inn í liðið hjá HK áður en hann vann sér fast sæti í byrjunarliðinu í vetur.

,,Mér finnst ég hafa æft vel í vetur og unnið fyrir stöðunni sem ég er í núna. Þetta er fínt traust sem Rúnar (Páll Sigmundsson, þjálfari HK) sýnir mér og liðið er að spila meiri sóknarbolta en síðustu ár. Það hefur komið sér vel fyrir mig."

,,Við vorum að æfa þrisvar í viku í Kórnum og einu sinni í Fífunni þannig að það var nóg af bolta hjá Rúnari í vetur. Það var mikið spilað og mikið af leikjum, við létum útihlaupin eiginlega vera og það er að skila sér í því að menn eru að spila nokkuð skemmtilegan fótbolta og reyna að hafa gaman af þessu."


HK er í 5.sæti eftir tíu leiki en Hörður hefði viljað sjá betri uppskeru hingað til.

,,Ég get ekki verið nógu sáttur við það hvernig við höfum verið að spila. Við erum ekki búnir að ná nógu góðum stöðugleika í leikina hjá okkur, við höfum verið að vinna og tapa til skiptis. Við vorum að spila betri bolta í vor en það er vonandi að þetta fari að smella hjá okkur," sagði Hörður en hann segir HK stefna beint aftur upp í úrvalsdeild.

,,Við stefnum upp strax. Ég held að þessi klúbbur eigi að vera þar og metnaðurinn liggur í að fara þangað."

HK hefur gengið vel í VISA-bikarnum en liðið er það eina úr 1.deild sem komst áfram í 8-liða úrslitin. Þar drógust HK-ingar gegn Breiðablik og Hörður og fleiri Kópavogsbúar fögnuðu eftir að búið var að draga.

,,Menn voru helvíti sáttir með að fá Blikana og það voru draumamótherjarnir. Það er skemmtilegra að fá þá núna en í undanúrslitunum þegar að við værum að spila á Laugardalsvellinum. Þetta verður hörkuskemmtilegur leikur og hörkubarátta. Ég hef ekki trú á öðru en að fólk fjölmenni á völlinn til að horfa á skemmtilegan leik."

Hörður á tvo nafna sem hafa núna lagt skóna á hilluna. Hörður Magnússon skoraði grimmt fyrir FH á sínum tíma og Hörður Már Magnússon hætti í fyrra eftir að hafa leikið með HK en fylgir það nafninu að spila í fremstu víglínu?

,,Það hlýtur að vera og það er vonandi að þetta sé eitthvað í nafninu. Maður fær þessa samlíkingu oft og menn sem þekkja til þessara kalla nefna þetta við mann," sagði Hörður en hann segir að nafnarnir hafi ekki haft áhrif á hann þegar hann ákvað að gerast framherji á sínum yngri árum.

,,Ég get ekki sagt það. Ég held að Roberto Baggio hafi haft mestu áhrifin þar," sagði Hörður léttur í bragði að lokum.

Sjá einnig:
Leikmaður 9.umferðar - Sævar Þór Gíslason (Selfoss)
Leikmaður 8.umferðar - Amir Mehica (Haukar)
Leikmaður 7.umferðar - Brynjar Hlöðversson (Leiknir R.)
Leikmaður 6.umferðar - Einar Ottó Antonsson (Selfoss)
Leikmaður 5.umferðar - Sævar Þór Gíslason (Selfoss)
Leikmaður 4.umferðar - Milos Glogovac (Víkingur R.)
Leikmaður 3.umferðar - Jóhann Benediktsson (Fjarðabyggð)
Leikmaður 2.umferðar - Andri Fannar Stefánsson (KA)
Leikmaður 1.umferðar - Ottó Hólm Reynisson (Þór)
Athugasemdir
banner
banner