Napoli í viðræðum um Garnacho - Villa hafnaði tilboði West Ham í Duran - Vlahovic orðaður við Chelsea
   þri 18. ágúst 2009 08:00
Magnús Már Einarsson
Leikmaður umf. 1.deild: ,,Er allan daginn í íslenskum fótbolta"
Gunnar Einarsson (Leiknir R.) er leikmaður 16.umferðar í 1.deild karla
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Matthías Ægisson
Mynd: Matthías Ægisson
Mynd: Matthías Ægisson
Gunnar Einarsson var öflugur í vörn Leiknis R. þegar liðið lagði Víking R. 2-1 í fyrstu deild karla síðastliðið fimmtudagskvöld. Gunnar er leikmaður sextándu umferðar hér á Fótbolta.net.

Gunnar Einarsson
Gunnar Einarsson er spilandi aðstoðarþjálfari hjá Leikni. Þessi 33 ára gamli varnarmaður gekk í raðir Leiknis í vor eftir að hafa leikið með KR og Val undanfarin ár. Gunnar lék einnig í atvinnumennsku í Hollandi á sínum tíma frá árinu 1997-2000.
,,Mér gekk þokkalega vel. Þetta var ekki spes leikur hjá okkur Leiknismönnum á heildina litið en við gerðum það sem við þurftum að gera og kláruðum lekinn," sagði Gunnar við Fótbolta.net.

Jakob Spangsberg, helsti markaskorari Leiknis undanfarin ár, gekk í raðir Víkings síðastliðinn vetur en Gunnar hélt honum alveg niðri í leiknum á fimmtudag.

,,Ég hef aldrei spilað á móti honum. Ég var meiddur í fyrri leiknum þegar að við töpuðum 5-1 og hann var mjög drjúgur í þeim leik. Ég fylgdist með utan vallar og sá veikleikana hans og nýtti mér þá í seinni leiknum."

Í leiknum gegn Víkingi var Gunnar miðvörður en hann hefur leikið bæði þar og í hægri bakverði í sumar.

,,Ég byrjaði í miðverðinum og síðan kom strákur sem heitir Óttar (Bjarni Guðmundsson) inn í liðið gegn HK í fyrri umferðinni. Hann er framtíðarmiðvörður hjá klúbbnum ásamt Halldóri (Kristni Halldórssyni) sem er virkilega öflugur. Ég sá enga ástæðu til að færa hann úr þeirri stöðu og ég steig bara til hliðar. Ég get spilað allar stöður í vörninni og læt hann frekar spila í sinni stöðu frekar en ég."

Gunnar spilaði með Val síðastliðið sumar en sagðist síðan vera hættur í fótboltanum. Hann ákvað hins vegar að rífa fram skóna fyrir tímabilið eftir að Sigursteinn Gíslason þjálfari Leiknis hafði samband.

,,Ég var hættur og það ekki í fyrsta skipti. En ég hélt mér í góðri æfingu í vetur. Ég hafði misst vinnuna á þeim tímapunkti sem hann hafði samband og ég sló til."

,,Þetta hefur þróast virkilega vel og verið mjög gaman. Það er gaman að vinna með Sigursteini Gíslasyni og hann leyfir mér að vera mikið með í því sem er að gerast. Aðstoðarþjálfarar geta verið að raða keilum en vægi mitt er miklu meira en bara það. Ég er mjög sáttur með að hafa tekið þetta skref að spila og vera honum til aðstoðar."


Gunnar starfar við fótbolta á daginn líka því í sumar hefur hann verið með knattþrautir KSÍ hjá félögum víðsvegar um landið.

,,Ég hef náð að tvinna þetta vel saman með boltanum og ég er allan daginn í íslenskum fótbolta og það er virkilega gaman. Eins og árferðið er í þjóðfélaginu í dag þá er eðlilegt að félögin dragi saman."

,,Mér er slétt sama þó að leikmenn meistaraflokka taki á sig launalækkanir svo framarlega sem að starfsemin komi ekki niður á grasrótarstarfseminni. Ég er ánægður með þetta framtak hjá KSÍ að vera með knattþrautir og vera sýnilegir. Það er ótrúlegt hvað það er mikið af efnilegum krökkum hjá strákunum og stelpunum og það er mikil framtíð í íslenskum fótbolta."


Hjá KSÍ vinnur Gunnar með Sigurði Ragnari Eyjólfssyni, góðum vini sínum, en Sigurður tók fram skóna á dögunum og æfði með Leikni. Gunnar útilokar hins vegar að hann muni ganga í raðir Leiknis.

,,Hann mætti á æfingu hjá Leikni um daginn og stóð sig þrælvel. Hann fór síðan út að hlaupa á dögunum og tognaði á kálfa, hann er algjört fransbrauð. Hann þyrfti allavega 24 mánaða undirbúningstímabil ef að hann ætlaði að fara að spila," sagði Gunnar í léttum tón hann segir framtíðina bjarta hjá Leiknismönnum.

,,Leiknisliðið er bráðefnilegt og er með mikið af ungum strákum. Síðustu ár hefur Leiknir verið frekar óaðlaðandi klúbbur aðstöðulega séð. Það hefur verið léleg aðstaða, skúrar og lélegur klefi og annað."

,,Aðstaðan í dag er á við úrvalsdeildarklúbb og félagið á framtíðina fyrir sér ef haldið er rétt á spöðunum. Að sjálfsögðu er markmiðið hjá Sigursteini að koma liðinu upp í úrvalsdeildina innan X tíma og ég sé alveg fyrir mér að það geti gerst fljótlega,"
sagði Gunnar sem gæti sjálfur haldið áfram að spila með liðinu næsta sumar.

,,Þetta er búið að vera svo skemmtilegt í sumar að maður veit aldrei. Það er virkilega gaman að vera í kringum þennan klúbb og miðla minni reynslu til strákana sem eru þarna. Ég hef haft gaman að því og það er aldrei að vita nema að það verði framhald á því," sagði Gunnar að lokum.

Sjá einnig:
Leikmaður 15.umferðar - Gunnleifur Gunnleifsson (HK)
Leikmaður 14.umferðar - Þorsteinn V. Einarsson (ÍR)
Leikmaður 13.umferðar - Sigurður Helgi Harðarson (Afturelding)
Leikmaður 12.umferðar - Jakob Spangsberg (Víkingur R.)
Leikmaður 11.umferðar - Rúnar Már Sigurjónsson (HK)
Leikmaður 10.umferðar - Hörður Magnússon (HK)
Leikmaður 9.umferðar - Sævar Þór Gíslason (Selfoss)
Leikmaður 8.umferðar - Amir Mehica (Haukar)
Leikmaður 7.umferðar - Brynjar Hlöðversson (Leiknir R.)
Leikmaður 6.umferðar - Einar Ottó Antonsson (Selfoss)
Leikmaður 5.umferðar - Sævar Þór Gíslason (Selfoss)
Leikmaður 4.umferðar - Milos Glogovac (Víkingur R.)
Leikmaður 3.umferðar - Jóhann Benediktsson (Fjarðabyggð)
Leikmaður 2.umferðar - Andri Fannar Stefánsson (KA)
Leikmaður 1.umferðar - Ottó Hólm Reynisson (Þór)
Athugasemdir
banner
banner