Jakob Spangsberg skoraði þrennu í fyrri hálfleik og var líflegur í fremstu víglínu þegar að Víkingur Reykjavík sigraði nafna sína frá Ólafsvík 4-1 í fyrstu deildinni síðastliðið föstudagskvöld. Jakob er leikmaður 12.umferðar í fyrstu deildinni.
Jakob Spangsberg
Jakob Spangsberg er 26 ára gamall danskur framherji en hann hefur leikið á Íslandi frá því árið 2004. Jakob gekk þá í raðir Leiknis og lék með liðinu þar til 2006 að hann fór í Val. Jakob náði ekki að festa sig í sessi þar og fór síðan aftur til Leiknis þar sem hann hélt áfram að raða inn mörkum. Í vetur gekk hann síðan í raðir Víkings þar sem hann hefur skorað átta mörk í fyrstu deildinni í sumar.
,,Ég var mjög ánægður með leikinn. Það er alltaf gaman að skora þrjú mörk og liðið spilaði mjög vel," sagði Jakob þegar að Fótbolti.net ræddi við hann í dag.
Jakob Spangsberg er 26 ára gamall danskur framherji en hann hefur leikið á Íslandi frá því árið 2004. Jakob gekk þá í raðir Leiknis og lék með liðinu þar til 2006 að hann fór í Val. Jakob náði ekki að festa sig í sessi þar og fór síðan aftur til Leiknis þar sem hann hélt áfram að raða inn mörkum. Í vetur gekk hann síðan í raðir Víkings þar sem hann hefur skorað átta mörk í fyrstu deildinni í sumar.
Víkingur R. leiddi 3-0 í leikhléi síðastliðið föstudagskvöld en Jakob var þá búinn að skora öll mörk leiksins.
,,Þetta gerðist mjög fljótt. Tvö af mörkunum komu eftir gott spil hjá strákunum og það gerði mér auðveldara fyrir."
Jakob skoraði einnig í 4-2 sigri Víkings á ÍR fyrir tæpri viku síðan og hann er núna kominn með átta mörk í fyrstu deildinni í sumar. Hann hefur ekki sett sér nein markmið yfir markaskorun í deildinni í sumar.
,,Ég lofa engu þegar að kemur að mörkum. Ég vonast til að skora eins mörg mörk og mögulegt er en svo lengi sem að við vinnum leiki þá er ég ánægður," sagði Jakob en hann ákvað að söðla um í vetur og ganga í raðir Víkings eftir að hafa leikið með Leikni við góðan orðstír undanfarin ár.
,,Það er alltaf gaman að prófa eitthvað nýtt og ég vissi að Víkingur er lið sem stefnir á titilinn og það er gaman að prófa það. Leikni hefur gengið vel í síðustu fjórum leikjum og það er gott fyrir þá."
Auk þess að vinna Víking Ó. og ÍR þá náðu Jakob og félagar að vinna KA á dögunum og því eru komnir þrír sigurleikir í röð hjá Víkingi R. eftir brösuga byrjun í deildinni.
,,Við höfum mikið sjálfstraust, leggjum hart að okkur á æfingum og það er mjög góður í andi í liðinu, ég held að það sé aðalatriðið," sagði Jakob aðspurður út í þessa breytingu á gengi liðsins.
Víkingar hafa eftir þessa þrjá sigurleiki skotist upp í sjötta sætið og nú er liðið einungis tveimur stigum á eftir Haukum í öðru sætinu.
,,Síðasta umferð spilaðist vel fyrir okkur. Öll toppliðin gerðu jafntefli eða töpuðu og við erum að færast nær toppnum. Við stefnum að sjálfsögðu á fyrsta sætið og stefnum á að vinna hvern einasta leik," sagði Jakob en næsti leikur liðsins er gegn HK á föstudag.
,,Það er mikilvægur leikur. Ef við vinnum þann leik þá er útlitið gott. Við getum unnið öll lið í deildinni og að sjálfsögðu getum við unnið HK. Við þurfum bara að spila okkar leik og þá eigum við möguleika," sagði Jakob að lokum.
Sjá einnig:
Leikmaður 10.umferðar - Hörður Magnússon (HK)
Leikmaður 9.umferðar - Sævar Þór Gíslason (Selfoss)
Leikmaður 8.umferðar - Amir Mehica (Haukar)
Leikmaður 7.umferðar - Brynjar Hlöðversson (Leiknir R.)
Leikmaður 6.umferðar - Einar Ottó Antonsson (Selfoss)
Leikmaður 5.umferðar - Sævar Þór Gíslason (Selfoss)
Leikmaður 4.umferðar - Milos Glogovac (Víkingur R.)
Leikmaður 3.umferðar - Jóhann Benediktsson (Fjarðabyggð)
Leikmaður 2.umferðar - Andri Fannar Stefánsson (KA)
Leikmaður 1.umferðar - Ottó Hólm Reynisson (Þór)
Athugasemdir