Napoli í viðræðum um Garnacho - Villa hafnaði tilboði West Ham í Duran - Vlahovic orðaður við Chelsea
   mán 06. júlí 2009 17:19
Magnús Már Einarsson
LU 1.deild: ,,Ég ætlaði alltaf að ná Hödda Magg"
Sævar Þór Gíslason (Selfoss) er leikmaður 9.umferðar í 1.deild karla
Sævar Þór glaður í bragði í leikslok gegn Aftureldingu.
Sævar Þór glaður í bragði í leikslok gegn Aftureldingu.
Mynd: Fótbolti.net - Magnús Már Einarsson
Mynd: Guðmundur Karl
Sævar í markinu gegn Hetti á dögunum.
Sævar í markinu gegn Hetti á dögunum.
Mynd: Guðmundur Karl
Mynd: Guðmundur Karl
Sævar Þór Gíslason lék frábærlega með Selfyssingum í 4-0 sigri liðsins á Aftureldingu síðastliðið föstudagskvöld. Sævar Þór skoraði öll mörkin í leiknum en hann er leikmaður 9.umferðar í fyrstu deildinni.

Sævar Þór Gíslason
Framherjinn Sævar Þór Gíslason er uppalinn á Selfossi. Eftir að hafa leikið með ÍR í tvö tímabil og síðan Fylki í sjö ár gekk hann aftur til liðs við Selfyssinga haustið 2005. Árið 2007 var hann valinn besti leikmaðurinn í 2. deildinni þegar Selfyssingar fór upp um deild. Þessi 33 ára gamli leikmaður var síðan markakóngur í fyrstu deildinni í fyrra auk þess sem hann var valinn í lið ársins.
,,Þetta var eiginlega of auðvelt. Þetta var ekki þeirra dagur á föstudaginn en klárlega okkar dagur," sagði Sævar Þór við Fótbolta.net í dag.

,,Við mættum tilbúnir en þeir mættu ekki tilbúnir. Á móti Leikni (í 4-0 tapi Sefyssinga) voru menn ekki tilbúnir inni á vellinum og við ætluðum ekki að láta það gerast aftur. Menn voru með hausinn í lagi og allir á tánum þegar að leikurinn byrjaði og útkoman var eftir því," sagði Sævar en hann hefur núna verið tvívegis maður umferðarinnar í 1.deildinni í sumar.

,,Þetta er ákveðinn heiður og þetta er alltaf gaman. Þetta er líka heiður fyrir liðið, það á mestan þátt í þessu."

Selfyssingar fjölmenntu í Mosfellsbæinn á föstudaginn og Sævar var ánægður með stuðninginn.

,,Það hefur verið stöðug bæting á áhorfendafjölda á útivöllum undanfarin ár. Það er töluvert af Selfyssingum sem eru búsettir í Reykjavík og þeir eru farnir að koma út úr skápnum. Þetta er stórkostlegt og ég tala nú ekki um þegar að Skjálfta strákarnir eru uppteknir í útilegum eða eitthvað."

Sævar skoraði ekki í fyrstu fjórum umferðunum í sumar en síðan þá hefur hann skoraði níu mörk í fimm leikjum og er þar með markahæstur í deildinni.

,,Jón Guðbrandsson var eitthvað að monta sig að hann væri markahæstur í liðinu þegar hann var kominn með tvö mörk. Hann hefur ekki skorað síðan og ég vissi alltaf að ég myndi fara fram yfir hann enda held ég að hann eigi ekki eftir að skora meira í sumar."

Mörkin gegn Aftureldingu fleyttu Sævari upp í 5.sætið á lista yfir markahæstu leikmenn Íslandsmótsins frá upphafi. Sævar er kominn með 157 mörk, þremur mörkum meira en Hörður Magnússon og ekki er ólíklegt að hann fari ennþá ofar á þeim lista í sumar.

,,Ég ætlaði alltaf að ná Hödda Magg en núna verð ég að setjast niður og setja mér ný markmið. Tryggvi Gunnarson, tengdapabbi kunningja míns, er rétt fyrir ofan mig og ég verð að setja mér markmið að ná honum."

Í dag og í gær var leikið í 16-liða úrsltum VISA-bikarsins en Selfyssingar töpuðu fyrir Hetti á dögunum og eru því úr leik í bikarnum.

,,Það hefur ekki verið mikið lagt upp úr bikarnum en það er alltaf gaman að spila bikarleiki. Það er ágætt að hafa dottið úr bikarnum og fengið hvíldina til að hlaða batteríin, fara í veiði og hafa það gott. Það er fínt að fara í veiði til að tæma hugann," sagði Sævar Þór sem þurfti að fara í markið gegn Hetti eftir að Jóhann Ólafur Sigurðsson fékk að líta rauða spjaldið.

,,Elías (Einarsson) varamarkvörður var í láni hjá Ægi og ég hef verið að leika mér í marki á æfingum og er langbestur af þessum strákum. Eftir að maður kom í markið þá þorðu þeir ekki að skjóta en þeir slysuðu inn einu víti og einhverju kúkamarki. Hattarmenn eiga heiður skilinn fyrir góðan leik og voru óheppnir að gera ekki betur á móti Breiðablik."

Næsti leikur Selfyssinga er gegn Haukum á heimavelli á fimmtudag en þetta eru tvö efstu lið deildarinnar.

,,Þetta er sex stiga leikur en við leggjum ekkert upp með að þetta sé úrslitaleikur. Þetta er bara einn leikur af 22 og ég vonast til að fólk komi á völlinn," sagði Sævar Þór sem mun í leiknum mæta Þórhalli Dan Jóhannssyni, gömlum liðsfélaga sínum úr Fylki.

,,Það er alltaf gaman að spila á móti Tóta. Við spjöllum heilmikið um daginn og veginn þegar að við erum að spila og reynum að trufla hvorn annan," sagði Sævar léttur í bragði að lokum.

Sjá einnig:
Leikmaður 8.umferðar - Amir Mehica (Haukar)
Leikmaður 7.umferðar - Brynjar Hlöðversson (Leiknir R.)
Leikmaður 6.umferðar - Einar Ottó Antonsson (Selfoss)
Leikmaður 5.umferðar - Sævar Þór Gíslason (Selfoss)
Leikmaður 4.umferðar - Milos Glogovac (Víkingur R.)
Leikmaður 3.umferðar - Jóhann Benediktsson (Fjarðabyggð)
Leikmaður 2.umferðar - Andri Fannar Stefánsson (KA)
Leikmaður 1.umferðar - Ottó Hólm Reynisson (Þór)
Athugasemdir
banner
banner
banner