Ottó Hólm Reynisson (Þór) er leikmaður 1. umferðar 1. deildar karla
,,Þetta kom mér á óvart, en við spiluðum mjög vel og það bjuggust ekki margir við að við myndum vinna Skagann. Mér fannst ég sjálfur spila vel en þetta kom mér samt á óvart," sagði Ottó Hólm Reynisson leikmaður Þórs á Akureyri sem var valinn leikmaður 1. umferðar í 1. deild karla hér á Fótbolta.net.
Bárum enga virðingu fyrir Skaganum
,,Ég er í þessu til að ná árangri og hef lagt hart á mig í vetur og uppsker bara eins og ég sái. Þjálfarinn valdi mig í liðið og ég endurgalt honum það traust."
Skagamönnum var spáð sigri í 1. deildinni í sumar en Þór 7. sætinu og því kom verulega á óvart þegar Þór vann leikinn 3-0 á laugardaginn.
,,Það var mjög gaman að fá Skagann í fyrstu umferð. Það bjuggust ekki margir við að við myndum gera neitt í sumar en sumarið er bara nýbyrjað og það er allt hægt,"hélt Ottó áfram.
,,Það var undirbúningurinn númer eitt tvö og þrjú sem skóp þennan sigur. Hann byrjaði í október þegar æfingar hófust að nýju. Við komum mjög grimmir til leiks og bárum enga virðingu fyrir Skaganum. Við vorum búnir að ákveða að heimavöllur okkar yrði gryfja og lið myndu ekki koma þangað og hirða stig."
Fór eitthvað í skapið á dómaranum
Leikurinn var spilaður í knattspyrnuhöll þeirra Akureyringa, Boganum þar sem vallaraðstæður á Akureyrarvelli þóttu ekki viðunandi. En hvernig fannst honum að byrja mótið innanhúss?
,,Mér fannst það bara ágætt miðað við að við höfum verið að spila inni í allan vetur. Betra en að spila inni en að spila úti á hörmulegu grasi og einhverju sem er ekki ennþá orðið grænt. Það er fínt að spila bara inni. Veðrið var alveg ágætt en grasið er ekki nógu gott. Það á að reyna að spila úti á föstudaginn gegn KA," sagði hann.
Skagamenn féllu óvænt niður í 1. deildina síðasta haust og ljóst að óvenjulegt er þegar svona stórlið leikur í 1. deild. En hvernig var stemmningin þá í Boganum þegar þeir gulu komu í heimsókn?
,,Stemmningin var mjög góð, stuðningsmennir okkar, Mjölnismenn, hafa verið okkar tólfti maður og stóðu sig alveg frábærlega. Dómarinn þurfti reyndar að stoppa leikinn og róa þá niður á tímabili. Þá höfðu þeir verið að kalla inn á völlinn að Arnar Gunnlaugsson væri orðinn stressaður og kölluðu Shell mótið væri búið á einhvern vinstri bakvörð þarna. Það fór eitthvað í skapið á dómaranum. En Vinir Sagga, stuðningsmen KA hafa verið frekar grófir undanfarin ár og láta mótherjann oft heyra það óspart."
Það lið vinnur sem mætir dýrvitlaust og er tilbúið að deyja
Sigurinn hefur svo gert það að verkum að Akureyringar eru orðnir spenntir fyrir Þórsliðinu í sumar.
,,Spennan er mjög góð, það eru allir mjög spenntir og ég held að allir sem voru Þórsarar í gamla daga og hættir að fylgjast með þessu séu að koma út úr skelinni. Maður er að heyra frá ótrúlegustu mönnum hvað það hafi verið gaman að sjá þessi úrslit og að þeir ætli að kíkja á völlinn á næstunni."
Næsti leikur Þórs er svo stærsti leikur ársins fyrir öllum Akureyringum, nágrannaslagur Þórs og KA sem verður leikinn á Akureyrarvelli. En eftir svona stóran sigur á ÍA, verður KA liðið ekki auðveldur andstæðingur?
,,Nei alls ekki, þetta er bara derby leikur sem byrjar í 0-0. Það eru 11 á móti 11 og það er þannig að það lið sem kemur dýrvitlaust til leiks og er tilbúið að deyja í stað þess að tapa mun vinna þennan leik. Þó KA væri í úrvalsdeild og við í þriðju deild eða öfugt væri alltaf mjög erfitt að mæta KA en í leiðinni mjög gaman," sagði Ottó Hólm að lokum.
Athugasemdir