Sævar Þór Gíslason skoraði tvívegis og átti góðan leik þegar að Selfyssingar unnu Víking Ólafsvík 3-0 í fyrstu deildinni síðastliðið fimmtudagskvöld. Sævar Þór er leikmaður fimmtu umferðar hér á Fótbolta.net.
Sævar Þór Gíslason
Framherjinn Sævar Þór Gíslason er uppalinn á Selfossi. Eftir að hafa leikið með ÍR í tvö tímabil og síðan Fylki í sjö ár gekk hann aftur til liðs við Selfyssinga haustið 2005. Árið 2007 var hann valinn besti leikmaðurinn í 2. deildinni þegar Selfyssingar fór upp um deild. Þessi 33 ára gamli leikmaður var síðan markakóngur í fyrstu deildinni í fyrra auk þess sem hann var valinn í lið ársins.
,,Þetta var mjög góður leikur þó að mótspyrnan hafi ekki verið mikil með fullri virðingu fyrir Víkingunum," sagði Sævar Þór við Fótbolta.net í dag. Sævar fiskaði vítaspyrnu í síðari hálfleik og hefði getað náð þrennunni en hann lét Einar Hjörleifsson verja frá sér.
Framherjinn Sævar Þór Gíslason er uppalinn á Selfossi. Eftir að hafa leikið með ÍR í tvö tímabil og síðan Fylki í sjö ár gekk hann aftur til liðs við Selfyssinga haustið 2005. Árið 2007 var hann valinn besti leikmaðurinn í 2. deildinni þegar Selfyssingar fór upp um deild. Þessi 33 ára gamli leikmaður var síðan markakóngur í fyrstu deildinni í fyrra auk þess sem hann var valinn í lið ársins.
,,Þetta var bara mjög lélegt víti og vel gert hjá Einari, hann plataði mig. Ég vissi alveg hvar ég átti að skjóta á hann en ég breytti á síðustu stundu og það boðar aldrei gott í vítunum."
Selfssingar voru í baráttu um að komast upp í efstu deild í fyrra og í ár hefur liðið byrjað vel og er í öðru sætinu eftir fimm umferðir.
,,Við erum á jörðinni þó að aðrir fari á flug. Við erum með okkar markmið og það er að búa til stöðugleika þar sem annað árið er alltaf erfiðast."
,,Byrjunin er framar vonum hjá okkur eftir að við misstum átta menn úr hópnum frá því í fyrra. Við fengum tvo sterka stráka inn, Ásgeir (Ólafsson) frá KR og Birki (Hlynsson) frá ÍBV. Þeir hafa fallið vel inn í þetta og síðan er samstaðan góð í hópnum og Gulli (Gunnlaugur Jónsson, þjálfari Selfyssinga) er að gera virkilega flotta hluti," sagði Sævar sem líkar vel við Gunnlaug sem þjálfara.
,,Ég er mjög ánægður með hann. Hann hefur reynslu og er að koma með ákveðna þekkingu inn í vörnina. Við fengum 36 mörk á okkur í fyrra en í ár höfum við fengið á okkur fjögur að ég held, liðið er allt massívara í varnarleiknum."
Sævar og Gunnlaugur áttust oft við á sínum tíma. Gunnlaugur hefur ekki spilað með Selfyssingum að undanförnu vegna meiðsla en Sævar hefur skýringu á því.
,,Það voru ófáar rimmurnar sem við áttum en hann á ekki séns í dag. Hann byrjaði að væla um meiðsli leið og maður var búinn að taka hann nokkrum sinnum, hann er ekkert búinn að vera með undanfarið."
Sævar Þór var markakóngur í fyrstu deildinni í fyrr og hann var einnig valinn í lið ársins. Sævar ætlaði að leggja skóna á hilluna eftir tímabilið en hann ákvað að hætta við það í vetur.
,,Það var eiginlega þrýstingur frá bæjarfélaginu að miklu leyti. Ég var valinn íþróttamaður Árborgar um áramótin og þá fannst mér renna blóðið til skyldunnar að taka eitt tímabil í viðbót fyrst ég var í ágætis standi."
,,Sebastian (Alexandersson, handboltaþjálfari) plataði mig til að spila í handboltanum eftir áramót og síðan kom ég beint inn í þetta en þetta var samt erfið ákvörðun. Ég tók bara harpixið af og fór beint í takkaskóna," sagði Sævar sem er frambærilegur handboltamaður.
,,Ég tel mig vera þokkalegan. Ég er gamall unglinalandsliðsmaður og ég spilaði með mjaltavélina í gamla daga, með Sigga Sveins og félögum."
Stemningin í kringum fótboltann á Selfossi hefur farið vaxandi og Sævar er ánægður með stuðninginn.
,,Við urðum fyrir gríðarlegu áfalli í janúar þegar að við misstum virkilega góðan félaga, Guðjón Ægi Sigurjónsson. Hann var drifkafturinn í meistaraflokksráði þar sem hann var formaður. Þetta þjappaði liðinu saman og það er mjög góð stemning í bæjarfélaginu og Skjálftastrákarnir gefast ekki upp þó að á móti blási."
,,Þeir fengu leiðinlega umfjöllun um sig á ÍR-velli núna og í Ólafsvík í fyrra. Sú umfjöllun var ekki sanngjörn þar sem að þeir voru ekki upphafsmenn að einu né neinu. Það eina sem maður getur gagnrýnt fólkið sem kemur á völlinn fyrir er að við erum með 400-500 manns á leik og það heyrist bara í Skjálftastrákunum. Ég skora á fólk að láta í sér heyra, það er okkar tólfti maður," sagði Sævar Þór að lokum.
Sjá einnig:
Leikmaður 4.umferðar - Milos Glogovac (Víkingur R.)
Leikmaður 3.umferðar - Jóhann Benediktsson (Fjarðabyggð)
Leikmaður 2.umferðar - Andri Fannar Stefánsson (KA)
Leikmaður 1.umferðar - Ottó Hólm Reynisson (Þór)
Athugasemdir