Varane, Diaz, Matip, Yamal, Davies og Rashford koma við sögu
   mán 06. júlí 2015 18:00
Magnús Már Einarsson
Bestur í 1. deild: Langt frá því að vera komið
Leikmaður 9. umferðar - Karl Brynjar Björnsson (Þróttur)
Karl Brynjar Björnsson.
Karl Brynjar Björnsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Við vorum ekkert að spila svakalega vel en það er gott að vinna leiki sem við spilum ekki vel í," sagði Karl Brynjar Björnsson varnarmaður Þróttar við Fótbolta.net í dag.

Karl Brynjar er leikmaður 9. umferðar í 1. deild karla en hann var öflugur í vörn Þróttar í 2-1 sigri á Haukum. Karl Brynjar er uppalinn hjá FH og leiddist ekki að sækja þrjú stig á Ásvelli.

„Það er alltaf gaman að vinna Haukana. Ég hef ekki tapað oft á móti þeim á ferlinum, ég held að það sé tvisvar sinnum eða eitthvað svoleiðis."

Karl Brynjar hefur átt gott tímabil en lið Þróttar hefur einungis fengið níu mörk á sig í 1. deidlinni í sumar.

„Við erum að verjast vel saman sem lið. Ég, Aron Ýmir og Hlynur (Hauksson) erum búnir að spila lengi saman og Davíð (Þór Ásbjörnsson) hefur smollið vel inn í þetta. Þegar einhver hefur dottið út þá hefur alltaf komið maður í manns stað og þetta hefur alltaf gengið vel."

Þróttur er á toppnum í 1. deildinni í dag en liðið hefur tekið stakkaskiptum síðan Gregg Ryder tók við þjálfuninni haustið 2013.

„Hann er búinn að standa sig frábærlega vel. Hann er rosalega skipulagður og fer vel í alla hluti. Það er búið að rýna í allt fyrir leikina og maður veit nákvæmlega hvernig maður á að bregðast við. Hann fer yfir alla leikmenn í hinu liðinu og þá er undir manni sjálfum komið að standa sig vel í leiknum."

Þrátt fyrir að Þróttur sé með fjögurra stiga forskot á toppi deildarinnar eru menn varkárir í Laugadalnum. „Ég held að það átti sig allir á því að þetta er langt frá því að vera komið. Það eru bara nokkur stig í næstu lið og ef við töpum nokkrum leikjum gætum við dottið niður um nokkur sæti. Ef við höldum áfram svona þá ættum við að fara upp."

Næsti leikur Þróttara er gegn Gróttu á heimavelli annað kvöld.„Það geta allir unnið alla í þessari deild. Við förum ekki í neinn leik með eitthvað vanmat. Grótta vann Þór á útivelli og það geta allir tapað á móti Gróttu," sagði Karl Brynjar að lokum.

Sjá einnig:
Leikmaður 1. umferðar - Orri Gunnarsson (Fram)
Leikmaður 2. umferðar - Dion Acuff (Þróttur)
Leikmaður 3. umferðar - Oddur Björnsson (Þróttur)
Leikmaður 4. umferðar - Pétur Bjarnason (BÍ/Bolungarvík)
Leikmaður 5. umferðar - Trausti Sigurbjörnsson (Þróttur)
Leikmaður 6. umferðar - Ingþór Björgvinsson (Selfoss)
Leikmaður 7. umferðar - Hafþór Þrastarson (Fjarðabyggð)
Leikmaður 8. umferðar - Alfreð Már Hjaltalín (Víkingur Ó.)
Stöðutaflan
  L U J T ms: mf: mun Stig
0 0 0 0 0 0 0 0 0
Athugasemdir
banner