Jesus gæti farið frá Arsenal - Möguleg stjóraskipti hjá Man Utd og Bayern - Dortmund vill halda Sancho
banner
   þri 15. ágúst 2017 15:39
Elvar Geir Magnússon
Grindvíkingurinn með gítarinn elskaður í Vestmannaeyjum
Sigurbjörn með gítarinn... og bikarinn.
Sigurbjörn með gítarinn... og bikarinn.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Stuðningsmenn ÍBV voru hreinlega magnaðir í stúkunni þegar þeirra menn gerðu sér lítið fyrir og urðu bikarmeistarar með sigri gegn Íslandsmeisturum FH á Laugardalsvelli á laugardag.

Eyjamenn fengu góðan liðsstyrk í Grindvíkingnum Sigurbirni Dagbjartssyni sem lék og söng á gítar í stúkunni. Sigurbjörn fór á kostum og er elskaður af Eyjamönnum.

„Ég er nú 1/4 frá Vestmannaeyjum þar sem föðuramma mín er þaðan en ömmur okkar Leifs Geirs Hafsteinssonar voru systur," segir Sigurbjörn en tengslin við Eyjarnar urðu svo enn meiri þegar hann fór að vera með stelpu sem er þaðan.

Fyrir bikarúrslitaleikinn var Sigurbjörn að ræða við vin sinn Bjarka Guðnason sem er frá Vestmannaeyjum um stemningu á íslenskum fótboltaleikjum og voru þeir sammála um að það þyrfti að keyra þetta upp.

Eftir að hafa rætt við Sunnu Sigurjónsdóttur, framkvæmdastjóra ÍBV, og Kristján Guðmundsson, þjálfara liðsins, ákvað Sigurbjörn að taka þátt í því að rífa upp stuðið í stúkunni með hjálp frá Hvítu Riddurunum, stuðningsmannasveit ÍBV sem hefur verið áberandi í handboltanum.

„Ég var aldrei í vafa um að þetta myndi ganga upp. Fólk var búið að fá sér nett söngvatn á undan og það eru til svo mörg æðisleg Eyjalög. Ég er klár á því að svona stemning skilar sér til liðsins," segir Sigurbjörn.

Leifur Geir var að sjálfsögðu mættur í stúkuna líka og spilaði ÍBV-lagið „Komum fagnandi“ í ófá skiptin. Trymbillinn Gísli Elíasson sá svo um að tónlistin væri taktföst. ÍBV vann óvæntan 1-0 sigur í bikarúrslitaleiknum og Sigurbjörn tók stemninguna alla leið og sigldi með liðinu til Eyja þar sem móttökurnar voru magnaðar.

„Ég varð að upplifa þetta. Þessi heimkoma er eitt það magnaðasta sem ég hef upplifað. Stórkostlegt. Það eru engir sem kunna þetta betur en Eyjamenn," segir Sigurbjörn.

Fyrst og fremst er hann þó Grindvíkingur og hann var mættur með gítarinn í stúkuna í gær þegar Grindavík vann 3-2 sigur gegn ÍA.

„Það var ekki sama stemning enda alls ekki sami fjöldi af fólki og ekki úr sömu lögum að velja. En stefnan er að gefa í og fjölga söngelsku fólki í kringum mig. Það verður enn betri stemning þegar við mætum Val á mánudaginn," segir Sigurbjörn.
Athugasemdir
banner
banner
banner