Olise, Branthwaite, Gutierrez, Guimaraes, Zubimendi og fleiri góðir í slúðurpakka dagsins
banner
   þri 26. mars 2024 21:37
Brynjar Ingi Erluson
Grátlegt tap í Póllandi og Ísland fer ekki á EM
Icelandair
Úr leiknum í kvöld
Úr leiknum í kvöld
Mynd: Mummi Lú
Albert skoraði stórbrotið mark, sem var hans fjórða í þessu verkefni
Albert skoraði stórbrotið mark, sem var hans fjórða í þessu verkefni
Mynd: Mummi Lú
Mynd: Mummi Lú
Úkraína 2 - 1 Ísland
0-1 Albert Guðmundsson ('30 )
1-1 Viktor Tsygankov ('54 )
2-1 Mykhailo Mudryk ('84 )
Lestu um leikinn

Ísland fer ekki á Evrópumótið í Þýskalandi en þetta varð ljóst eftir 2-1 tap liðsins gegn Úkraínu í Wroclaw í Póllandi í kvöld.

Úkraínumenn ógnuðu aðeins í byrjun leiks áður en Ísland náði að vinna sig betur inn í leikinn.

Jón Dagur Þorsteinsson átti hörkutilraun á markið á 15. mínútu leiksins en Andriy Lunin varði skotið. Hákon Arnar Haraldsson gerði vel í aðdragandanum í spretti sínum.

Stuttu síðar fékk Vitaly Mykolenko fínasta séns rétt fyrir utan teiginn en skot hans framhjá markinu.

Eftir hálftímaleik dró til tíðinda. Albert Guðmundsson dansaði með boltann fyrir utan teiginn, lék á einn Úkraínumanninn áður en hann þrumaði með vinstri fæti og í hægra hornið. Fjórða mark hans í þessum glugga og komið með þennan X-factor sem Ísland hefur verið að leita að.

Hákon Rafn Valdimarsson átti góða vörslu frá Georgiy Sudakov áður en Roman Yaremchuk kom boltanum í netið stuttu seinna eftir fyrirgjöf Viktor Tsgankov.

Sem betur fer fyrir Ísland þá var rangstaða í aðdragandanum og staðfesti VAR rangstöðuna. Léttir fyrir íslenska liðið.

Undir lok hálfleiksins fékk Ruslan Malinovsky að líta gula spjaldið fyrir að gefa Hákoni Arnari olnbogaskot upp við hliðarlínu. Clément Turpin, dómari leiksins, ákvað að draga upp gula spjaldið en var alveg í rétti að sýna annan lit á spjaldinu.

Staðan 1-0 í hálfleik fyrir Íslandi og aðeins 45 mínútum frá því að komast á EM, en Úkraína var ekki lengi að koma Íslendingum niður á jörðina.

Tsygankov jafnaði metin á 54. mínútu leiksins. Hann fékk sendingu frá Sudakov og út á vænginn, skar sig inn í átt að vítateignum áður en hann skoraði með föstu skoti í vinstra hornið.

Úkraínumenn héldu áfram að liggja á íslenska liðinu og skapaði sér nokkur álitleg færi. Tsygankov hamraði í hliðarnetið og þá varði Hákon aukaspyrnu Sudakov yfir markið.

Íslenska liðið tók aftur við sér á lokakaflanum. Jón Dagur var grátlega nálægt því að koma Íslandi yfir á 77. mínútu en Lunin varði með tilþrifum í horn. Albert fékk þá annað færi stuttu síðar en setti boltann framhjá úr ansi þröngu færi.

Þegar tæpar sex mínútur voru til leiksloka fékk Ísland rennblauta tusku í andlitið. Úkraínumenn dönsuðu við teiginn áður en Mykhailo Mudryk fékk boltann við vítateigslínuna áður en hann setti hann með hægri í vinstra hornið. Grátlegt.

Ísland færði sig ofar á völlinn á síðustu mínútum í leit að jöfnunarmarki en náði ekki að skapa sér neitt af viti. Ótrúlega svekkjandi tap gegn Úkraínu og er nú ljóst að Ísland mun ekki taka þátt í Evrópumótinu í sumar.

Hetjuleg barátta engu að síður. Liðið spilaði vel stærstan hluta leiksins og náði að standast pressu Úkraínumanna. Það er búið að skapa ágætis grunn og ekki ástæða til annars en að horfa björtum augum á framtíðina.
Athugasemdir
banner
banner
banner