Varane, Diaz, Matip, Yamal, Davies og Rashford koma við sögu
   þri 26. mars 2024 10:00
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Rúnar fór með ÍA í æfingaferðina - „Vonast til að það verði klárað"
Rúnar Már Sigurjónsson.
Rúnar Már Sigurjónsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Rúnar Már Sigurjónsson fór nýverið með ÍA í æfingaferð til Spánar og vonast Skagamenn til að hann muni leika með liðinu í Bestu deildinni í sumar.

Miðjumaðurinn hefur verið orðaður við heimkomu og er hann búinn að vera mest orðaður við ÍA og Val. Í janúar var það sagt að Akranes væri líklegasti áfangastaðurinn. Hann er án félags eftir að hafa yfirgefið Voluntari í Rúmeníu í síðasta mánuði.

Rúnar Már er 33 ára og fyrrum landsliðsmaður; á alls að baki 32 landsleiki og skoraði í þeim tvö mörk. Rúnar lék síðast á Íslandi tímabilið 2013 og var seldur frá Val til Sundsvall í Svíþjóð. Rúnar hefur leikið með Tindastóli, Ými, HK og Val á Íslandi.

„Við erum geysilega ánægðir með leikmannahópinn eins og er, og ef ekkert óvænt kemur upp þá erum við búnir að loka honum. Við erum gríðarlega ánægðir með leikmannahópinn," sagði Jón Þór Hauksson en þó með þeim fyrirvara að eitt stórt nafn gæti bæst við.

„Hann kom með okkur í æfingaferðina og er að leggja gríðarlega hart að sér að koma til baka. Hann fór í aðgerð í janúar."

Kristján Óli Sigurðsson úr Þungavigtinni sagði frá því á dögunum að Rúnar Már væri búinn að semja við ÍA með því skilyrði að hann standist læknisskoðun þegar hann er búinn að jafna sig af meiðslum sem eru núna að hrjá hann.

„Það á bara eftir að klára það. Hann (Kristján Óli) veit þá eitthvað meira en ég ef það er klárt. Ég vonast til þess að það verði klárað," sagði Jón Þór í síðustu viku en á morgun spilar ÍA úrslitaleik í Lengjubikarnum gegn Breiðabliki.
Jón Þór um veturinn: Fengum þá leikmenn sem við ætluðum okkur að fá
Athugasemdir
banner
banner
banner