Haraldur Freyr Guðmundsson þjálfari Keflavíkur var nokkuð kátur að leik loknum eftir 2-1 sigur Keflavíkur á Grindavík á HS Orkuvellinum í Keflavík fyrr í kvöld. Aðspurður afhverju Keflavík hefði staðið uppi sem sigurvegarari svaraði Haraldur.
Lestu um leikinn: Keflavík 2 - 1 Grindavík
„Stutta svarið við því er að við skoruðum tvö en þeir eitt. Mér fannst þetta fínn leikur, vel spilaður hjá okkur og þeim líka. Það voru kaflaskil í þessu eins og er oft. Við vorum með 1-0 stöðu í hálfleik og fannst við koma út í seinni hálfleik og taka öll völd og gera fljótlega annað mark. Svo fáum við á okkur smá klaufamark eftir mistök Ásgeirs í markinu og þeir fá smá blóð á tennurnar og liggja aðeins á okkur. Mér fannst við ekki nýta þá stöðu nægilega vel að geta sótt hratt á þá en við tökum stigin.“
Keflavík á í baráttu um að komast í umspil um sæti í Bestu deildinni og sigurinn í dag fleytir þeim skrefi nær því markmiði. Hvernig horfa menn á það í framhaldinu? Er liðið búið að setja sér ný markmið?
„Það skiptir kannski ekki öllu máli hvar þú lendir í umspilinu. Það eru sex leikir eftir og nóg eftir að stigum í pottinum. Auðvitað er kannski þægilegra að vera númer tvö eða þrjú en eins og staðan er í dag er markmiðið að komast í umspilið.“
Ívar Örn Árnason, fyrirliði KA, fékk það verkefni að spá í leiki umferðarinnar í Lengjudeildinni. Tveir leikmenn Keflavíkur þeir Sami Kamel og Dagur Ingi Valsson hafa verið orðaðir við KA að undanförnu. Ívar Örn sagði í spá sinni.
„ 2-0 sigur Keflvíkinga og mörkin frá Degi og Sami Kamel sem fagna svo sigrinum með því að skrifa undir hjá KA.“
Aðspurður hvort eitthvað væri að frétta af málum þeirra tveggja sagði Haraldur.
„Nei það er ekkert að frétta þar. Auðvitað er alltaf eitthvað í gangi þegar glugginn er opinn og lið að þreifa á einhverjum leikmönnum hjá okkur og öðrum og við hjá þeim. En nei það er enginn að fara héðan.“
Sagði Haraldur en allt viðtalið má sjá hér að ofan
Athugasemdir