Branthwaite, Zirkzee og Olise til Man Utd? - Potter til Hollands - Nunez til Barca og Osimhen til Chelsea
   fös 14. júlí 2017 17:15
Elvar Geir Magnússon
Bestur í 2. deild: Mætti halda að hann hafi skotið með þriðja fætinum
Halldór Bogason (KV)
Halldór Bogason.
Halldór Bogason.
Mynd: Fótbolti.net - Raggi Óla
„Uppleggið var að vera þéttari til baka heldur en í síðustu leikjum þar sem við vorum að fá of mörg mörk á okkur," segir Halldór Bogason, varnarmaður KV, en hann er leikmaður 11. umferðar í 2. deildinni. Halldór var öflugur í vörninni í 2-1 sigri á Aftureldingu í vikunni.

„Afturelding var meira með boltann í fyrri hálfleik á meðan við beittum skyndisóknum. Við komumst yfir eftir frábært spil í gegnum miðjuna á 28. mínútu. Í seinni hálfleik tók Afturelding yfir leikinn og lágu lengi vel á okkur. Það bar árangur en undir lok leiks ná þeir að jafna eftir flotta sókn."

„Þeir halda áfram að þjarma að okkur en við nælum okkur í víti á 98 mínútu og skorum úr því. Ég sá ekki atvikið nógu vel í leiknum en eftir að hafa séð myndband af atvikinu á Twitter þá má segja að við höfum verið örlítið heppnir með dóminn,"
sagði Halldór en sigurmarkið kom úr vítaspyrnu á 98. mínútu leiksins.

„Það var mjög ánægjulegt. Við höfum átt erfitt með Aftureldingu síðustu ár þannig þessi sigur var kærkominn. Enginn annar en Jón Kári steig á punktinn og það mætti halda að hann hafi skotið með þriðja fætinum. Þvílíkur kraftur. Hann er kominn með 4 mörk úr vítum drengurinn."

Halldór kom aftur inn í vörn KV í ár eftir tæplega þriggja ára hlé frá fótbolta vegna hnémeiðsla.

„Þetta er bara allt annað líf. Maður áttar sig á því hversu mikilvægur fótboltinn og félagskapurinn sem honum fylgir er manni þegar maður tapar honum. Kannski smá væminn en þetta eru bara forréttindi og ég gæti ekki verið ánægðari þessa stundina. Rómantíkin blómstrar í Vesturbænum."

Næsti leikur KV er á móti Magna á morgun en hvert er markmið Vesturbæinga út tímabilið?

„Markmiðið er fyrst og fremst 3 stig í næsta leik. Það er stutt í sætin fyrir ofan og einnig fyrir neðan þannig við þurfum að vera tánum," sagði Halldór að lokum.

Fyrri leikmenn umferðarinnar:
10. umferð - Blazo Lalevic (Huginn)
9. umferð - Kenneth Hogg (Tindastóll)
8. umferð - Andri Fannar Freysson (Njarðvík)
7. umferð - Bjarki Baldvinsson (Völsungur)
6. umferð - Ragnar Þór Gunnarsson (Tindastóll)
5. umferð - Hjörtur Geir Heimisson (Magni)
4. umferð - Stefán Birgir Jóhannesson (Njarðvík)
3. umferð - Andri Fannar Freysson (Njarðvík)
2. umferð - Kristján Atli Marteinsson (Magni)
1. umferð - Sæþór Olgeirsson (Völsungur)
Athugasemdir
banner
banner