Varane, Diaz, Matip, Yamal, Davies og Rashford koma við sögu
   þri 19. mars 2024 14:26
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Gefur Mainoo stöðuhækkun eftir að hafa fengið mikla gagnrýni
Kobbie Mainoo.
Kobbie Mainoo.
Mynd: Getty Images
Gareth Southgate.
Gareth Southgate.
Mynd: EPA
Kobbie Mainoo, miðjumaður Manchester United, hefur verið kallaður upp í enska A-landsliðið.

Mainoo var gjörsamlega frábær þegar Manchester United vann dramatískan 4-3 sigur gegn Liverpool í FA-bikarnum síðasta sunnudag.

Mainoo, sem er 18 ára gamall, hefur komið eins og stormsveipur inn í lið United á þessu tímabili en það hefur vakið hörð viðbrögð að hann hafi ekki verið valinn í enska landsliðið í síðustu viku. Á dögunum opinberaði Gareth Southgate, þjálfari enska landsliðsins, hóp sinn fyrir verkefnið í mars en þar var enginn Mainoo. Jordan Henderson, sem hefur ekki verið að spila vel með Ajax í Hollandi, var samt sem áður valinn í hópinn.

Núna hefur Southgate séð að sér og kallað Mainoo upp í A-landsliðið en hann átti upprunalega að vera í U21 landsliðinu. Það datt enginn út en svo virðist sem frammistaða miðjumannsins unga gegn Liverpool hafi gert útslagið.

Má lofa Mainoo og lasta Southgate í leiðinni
„Það er skemmtilegt að horfa á þennan gæja," sagði Jóhann Páll Ástvaldsson, íþróttafréttamaður á RÚV, í hlaðvarpinu Enski boltinn í gær þegar rætt var um Mainoo.

„Það má lofa Kobbie og lasta þá Gareth Southgate í leiðinni fyrir að hafa tekið Henderson frekar," sagði fjölmiðlamaðurinn Orri Freyr Rúnarsson í þættinum.

„Það var talað um það í enskum fjölmiðlum um daginn að það væri skandall ef England myndi ekki vinna Evrópumótið, en þeir verða að muna að þeir eru með Southgate sem þjálfara," sagði undirritaður í þættinum.

„Ætli hann finni svo ekki leið til að velja Kalvin Phillips aftur fyrir EM?" sagði Orri Freyr léttur.

Mainoo er orðinn gríðarlega vinsæll á meðal stuðningsmanna Man Utd. „Það er stórgalið að Kobbie Mainoo sé ekki í landsliðshópnum og Henderson sé þar inni," sagði undirritaður.

„Hann hefur nánast ekki stigið feilspor, búinn að keyra á þetta og hefur verið flottur," sagði Jóhann Páll.
Enski boltinn - Töfrar í bikarnum
Athugasemdir
banner
banner
banner