Rashford, Fonseca, Moyes, Jorginho, Fati, Lenglet, Amorim, Sterling og Lukaku koma við sögu
   þri 03. júní 2014 16:30
Magnús Már Einarsson
Bestur í 6. umferð: Þreyttur á umræðu um formið á mér
Veigar Páll Gunnarsson (Stjarnan)
Veigar Páll Gunnarsson í leiknum í gær.
Veigar Páll Gunnarsson í leiknum í gær.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
,,Þetta var fínn leikur persónulega en maður spáir ekki mikið í því þegar maður missir svona leik í jafntefli. Við vorum miklu betri og áttum að vinna. Það er samt gott að vita að maður getur eitthvað ennþá í fótbolta," sagði Veigar Páll Gunnarsson við Fótbolta.net í dag en hann er leikmaður 6. umferðar eftir frammistöðu sína með Stjörnunni gegn Breiðabliki í gær.

Veigar átti flottan leik í Kópavoginum í gær en hann lagði upp mark Stjörnunnar.

,,Ég er ekki viss um að þetta hafi verið besti leikurinn minn síðan ég kom heim en þetta var allavega besti leikurinn á þessu ári."

,,Mér finnst ég vera í fínu formi. Ég komst í gott form á undirbúningstímabilinu enda gekk vel þar. Það var hundleiðinlegt að meiðast í fyrsta leik í sumar og missa af leikjum en mér finnst ég vera í fínu formi og vona að það verði fleiri svona leikir."


Alltaf verið í fínu formi
Veigar Páll segist vera orðinn þreyttur á þeim sem tala um að hann sé ekki í nægilega góðu formi en sú umræða skaut meðal annars upp kollinum eftir að hann kom heim úr atvinnumennsku í fyrra.

,,Ég hef alltaf verið í fínu formi þó að ég líti ekki út fyrir það. Ég viðurkenni að ég er orðinn örlítið þreyttur á umræðunni um formið á mér. Maður er búinn að líta nákvæmlega eins út í 16-17 ár í fótboltanum og það er alltaf talað um formið á mér, frá því að ég var 15 ára gamall."

,,Það er ekki spurning um formið hvort maður stendur sig eða ekki, þetta er aðallega hausinn. Maður var hálf kærulaus í fyrra og ég held að það hafi gert það að verkum að maður stóð ekki alveg undir væntingum. Nú veit ég hvað ég er að fara út í og veit hvað ég þarf að gera til að standa mig."


Eiga mikið inni
Stjörnumenn eru ósigraðir í 2. sæti deildarinnar með tólf stig eftir sex umferðir. Veigar segir að Garðbæingar ætli að taka þátt í toppbaráttunni af fullum krafti en hann segir að Stjarnan eigi nóg inni.

,,Við ætlum okkur að vera í toppbaráttu og þá verðum við að ná þessum stigum. Við höfum ekki verið sannfærandi og við vitum allir að við getum gert miklu betur. Það er jákvætt að vera komnir með öll þessi stig og vita að við eigum helling inni," sagði Veigar að lokum.

Sjá einnig:
Leikmaður 5. umferðar - Ögmundur Kristinsson (Fram)
Leikmaður 4. umferðar - Ólafur Karl Finsen (Stjarnan)
Leikmaður 3. umferðar - Elías Már Ómarsson (Keflavík)
Leikmaður 2. umferðar - Jonas Sandqvist (Keflavík)
Leikmaður 1. umferðar - Mads Nielsen (Valur)
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner