Rashford, Fonseca, Moyes, Jorginho, Fati, Lenglet, Amorim, Sterling og Lukaku koma við sögu
   fim 03. júlí 2014 12:15
Magnús Már Einarsson
Bestur í 10. umferð: Mun 100% spila aftur á Íslandi
Jeppe Hansen (Stjarnan)
Jeppe Hansen.
Jeppe Hansen.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
,,Þetta var góður leikur hjá mér og liðinu. Þetta var langbesti leikur minn með Stjörnunni," segir Jeppe Hansen leikmaður 10. umferðar í Pepsi-deild karla.

Jeppe skoraði bæði mörk Stjörnunnar í 2-1 sigri á Fram en þetta var kveðjuleikur hans með Garðbæingum. Stjarnan var manni færri í um það bil klukkutíma eftir að Atli Jóhannsson fékk að líta rauða spjaldið í fyrri hálfleik.

,,Ég hef aldrei verið í liði sem hefur unnið svona. Allir voru í skýjunum í klefanum eftir leik og menn geta verið stoltir af sigrinum. Við sýndum að við getum þetta og ég vona að við getum barist um titilinn. Ég mun fylgjast áfram með Stjörnunni frá Danmörku," sagði Jeppe sem er svekktur að missa af Evrópuleiknum gegn Bangor í dag.

,,Ég vona að ég geti horft á leikinn á netinu því ég vil sjá hann. Ég hef séð myndir frá Íslandi og allir virðast vera spenntir fyrir leiknum. Ég hefði mikið viljað spila þennan leik og leikinn gegn FH annan sunnudag."

Fullkomið fagn fyrir þetta mark
Fyrra mark Jeppe gegn Fram var eitt það fallegasta sem hefur litið dagsins ljós í Pepsi-deildinni í sumar. Jeppe fíflaði þá þrjá varnarmenn Fram og endaði á frábærum snúning.

,,Ég er stoltur af því að hafa skorað svona mark. Ég er mjög ánægður með markið, mér fannst það flott, þú ert kannski sammála?" sagði Jeppe léttur í bragði en hann fékk gult spjald fyrir að fagna markinu með því að rífa sig úr að ofan.

,,Þetta var fullkomið fagn fyrir svona mark, maður verður að gera eitthvað sérstakt. Þetta var einungis þriðja gula spjaldið mitt á ferlinum svo ég gat tekið spjald á mig. Henrik Bödker aðstoðarþjálfari sagði mér eftir spjaldið að gera ekki neitt heimskulegt því það voru 25 mínútur eftir. Ég held að hann hafi haft smá áhyggjur en það var engin ástæða til þess."

Ætlar að spila aftur á Íslandi
Jeppe gerði um mánaðarmótin tveggja ára samning við Fredericia í dönsku B-deildinni en hann segist stefna á að leika aftur á Íslandi í framtíðinni.

,,Þegar ég fékk tilboðið frá Stjörnunni sagði ég nei fyrst. Henrik hélt áfram að suða í mér og ég ákvað að koma. Það er besta ákvörðun sem ég hef tekið."

,,Ég á eftir að sakna Íslands. Þetta var besti tíminn á ferli mínum. Ég mun spila aftur á Íslandi einn daginn, það er 100%. Ég var svo ánægður með tímann þar. Ég vona að ég geti fengið aftur samning á Íslandi og ég myndi gjarnan vilja spila fyrir Stjörnuna, það er mitt lið,"
sagði Jeppe að lokum.

Sjá einnig:
Leikmaður 9. umferðar - Kristján Gauti Emilsson (FH)
Leikmaður 8. umferðar - Aron Elís Þrándarson (Víkingur)
Leikmaður 7. umferðar - Pape Mamadou Faye (Víkingur)
Leikmaður 6. umferðar - Veigar Páll Gunnarsson (Stjarnan)
Leikmaður 5. umferðar - Ögmundur Kristinsson (Fram)
Leikmaður 4. umferðar - Ólafur Karl Finsen (Stjarnan)
Leikmaður 3. umferðar - Elías Már Ómarsson (Keflavík)
Leikmaður 2. umferðar - Jonas Sandqvist (Keflavík)
Leikmaður 1. umferðar - Mads Nielsen (Valur)
Athugasemdir
banner