Rashford, Fonseca, Moyes, Jorginho, Fati, Lenglet, Amorim, Sterling og Lukaku koma við sögu
   mán 11. september 2017 18:16
Elvar Geir Magnússon
Van Basten hreifst af stemningunni og spilamennskunni á Íslandi
Van Basten og Jörundur.
Van Basten og Jörundur.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Hollenska fótboltagoðsögnin Marco van Basten var meðal áhorfenda þegar Ísland vann Úkraínu í undankeppni HM í síðustu viku, Van Basten er af mörgum talinn í hópi bestu fótboltamanna sögunnar en starfar í dag fyrir FIFA.

Jörundur Áki Sveinsson var með Van Basten á leiknum og segir að sá hollenski hafi skemmt sér vel á Laugardalsvellinum.

„Hann var mjög ánægður með íslenska liðið. Hann hreifst af stemningunni á vellinum og hvernig Ísland var að spila. Það var virkilega gaman að heyra hans skoðun á því sem er í gangi hérna. Það er frábært að svona goðsögn hafi svona jákvætt álit á okkur," sagði Jörundur í útvarpsþættinum Fótbolti.net á X977.

Van Basten vann til fjölda titla á ferlinum, hjá Ajax og AC Milan og einnig mörg einstaklingsverðlaun. Þá varð hann Evrópumeistari með hollenska landsliðinu 1988.

„Hann er háttsettur hjá FIFA í dag en sagði við mig að hann vildi alls ekki vera skrifstofumaður. Hann er meira í að ferðast um heiminn, horfa á fótbolta og láta sjá sig. Hann býr í Amsterdam en vinnur í Zürich og fer þangað á mánudagsmorgnum og er til föstudags."

„Hann er mikið að þvælast um Evrópu og heiminn allan og fylgjast með því sem er í gangi. Ég sagði við hann að hann væri í draumastarfinu og hann neitaði því ekki," segir Jörundur sem spurði hann að því hvort hann saknaði þess ekki að þjálfa.

„Hann sagðist alls ekki gera það. Það væri bara ekki fyrir hvern sem er að vera í þessu starfi, sagðist lítið hafa sofið og að starfið tæki of mikið á. Hann sagðist sennilega aldrei fara aftur í þjálfun."

Þetta var ekki í fyrsta sinn sem Van Basten kemur til landsins.

„Hann rifjaði það upp að hann lék hér á landi með U21 landsliðinu, að honum minnti 1982. Þá fór hann á leik með A-landsliði Íslands á Laugardalsvelli. Hann sagði að þetta hefði nú breyst mikið síðan þá. Ég fór að segja honum frá hugmyndum um uppbyggingu á nýjum velli og hann sagðist vonast til að næst þegar hann kæmi væru þessar breytingar komnar í gegn."

Jörundur segir að Van Basten hafi fengið mikla athygli.

„Hann er afskaplega viðkunnanlegur maður og gaf frá sér góðan sjarma. Um leið og ég labbaði út af hótelinu með honum þá var þar fullt af úkraínskum aðdáendum sem vildu fá myndir af sér með honum. Hann var viljugur til að gera það en fannst ekki viðeigandi að fara í viðtöl hjá fjölmiðlum."

„Um leið og við komum inn á Laugardalsvöll bað hann um að fara inn á klefagang og vildi hitta þjálfarateymi Úkraínu. Ég reddaði því. Hann spilaði með Mauro Tassotti (aðstoðarþjálfara Úkraínu) hjá AC Milan. Hann ræddi við hann og Shevchenko og svo talaði hann líka við Alfreð Finnbogason," segir Jörundur en Van Basten þjálfaði Alfreð hjá Heerenveen.

Viðtalið við Jörund má heyra með því að smella hér en við látum líka fylgja með eitt frægasta mark Van Basten.


Athugasemdir
banner
banner
banner