Man Utd líklegast að fá Olise - Man Utd til í að hlusta á tilboð í Rashford - Juve leiðir kapphlaupið um Greenwood
banner
   mán 06. júní 2011 12:30
Daníel Geir Moritz
Pistill: Pistlar á Fótbolta.net eru viðhorf höfundar og þurfa ekki endilega að endurspegla viðhorf vefsins eða ritstjórnar hans.
Emmanuel Eboue, hinn svarti Messi
Daníel Geir Moritz
Daníel Geir Moritz
Mynd: Getty Images
Mynd: Getty Images
Ef myndir væru í orðabókum til útskýringar væri mynd af Emmanuel Eboue við orðið ólíkindatól. Afríkumaðurinn brosmildi er ávallt í umræðunni eftir að hafa spilað leiki, enda á hann sjaldan ágæta leiki. Hann annað hvort vinnur leiki eða tapar þeim. Hið síðarnefnda er reyndar orðið talsvert algengara.

Eboue kom til Arsenal árið 2005, en eins og svo oft áður hafði enginn hugmynd um hvað Wenger væri að kaupa. Óhætt er að segja að Eboue hafi byrjað vel hjá félaginu; Vann sig inn í byrjunarliðið sem hægri bakvörður, sýndi mikla sóknarhæfileika í þokkabót og var valinn í úrvalslið meistaradeildarinnar á sínu fyrsta tímabili. Síðan er óhætt að segja að allt hafi legið niður á við hjá kappanum. Wenger vissi ekki alveg hvar væri best að nota hann og spilaði Eboue mikið á kantinum næstu tímabil. Þrátt fyrir að geta hlaupið með boltann límdan við tærnar og hæfileika til að troða sér í gegnum varnir, eru sendingar sjaldnast snilldarlegar og skottækni á undanhaldi. Ég á mér þann draum að sjá Eboue, Jon Obi Mikel og Javier Mascherano útfæra aukaspyrnu, en það er önnur saga.

Eboue afrekaði það að koma inn á sem varamaður og vera svo skipt útaf. Slíkt er ekki alveg óþekkt, því varamenn geta meiðst eins og aðrir. Það voru þó ekki meiðsli sem settu strik í reikninginn að þessu sinni, heldur arfaslök frammistaða. Á nýliðnu tímabili er eftirminnilegast þegar Eboue braut af sér innan vítateigs gegn Liverpool þegar langt var liðið á uppbótartíma. Víti dæmt, Liverpool skoraði og Eboue búinn að gera sig að athlægi.

Okkur Arsenalmönnum þykir engu að síður vænt um þennan kappa. Þrátt fyrir afglöp, að hann setji hendurnar út í loftið og lendir á andlitinu í hvert skipti sem hann dettur og að ferill hans svipi til Íslenska efnahagsundursins, er hann mjög vinsæll. Hann er eiginlega eins og skrýtni frændinn í ættinni. Öllum þykir vænt um hann, allir tala um hann og við, en allir velta líka fyrir sér hvernig lífið væri án hans. Eboue berst fyrir klúbbinn, er alltaf fyrstur að fagna með leikmönnum, hvort sem hann er á bekknum eða á vellinum, og skín (einhverra hluta vegna) alltaf af honum leikgleði. Til er Eboue-aðdáandaklúbbur á Íslandi og er hann ekki síður dáður af aðdáendum ytra. Eboue er einnig vinsælasti leikmaður Arsenal hjá leikmönnum sjálfum. Hann er spaugarinn í klefanum, sá sem slær á létta strengi og hvetur menn áfram. Myndbönd af þessu ólíkindatóli hafa farið eins og eldur í sinu um netheima.

T.d. þetta hér þegar hann er að hita upp:


Þetta hér þegar hann er að hita upp:


Og þetta myndband frá síðasta HM þegar hann lætur eins og að hann skilji mætavel hvað N-Kóreumenn ræða sín á milli:


Ef Eboue væri einhver annar, þá hefði hann alla burði til að verða heimsklassa leikmaður. Þegar Arsenal spilaði gegn Barcelona um árið mættu sumir frekar til að sjá hann en Lionel Messi. Eflaust í gríni, en oft er sagt að öllu gríni fylgi nokkur alvara.

Emmanuel Eboue er svarti Messi.
banner
banner