Rashford, Fonseca, Moyes, Jorginho, Fati, Lenglet, Amorim, Sterling og Lukaku koma við sögu
   fim 21. apríl 2016 10:15
Elvar Geir Magnússon
Lykilmaðurinn: Færeyjar með lengra tímabil en við
Oliver Sigurjónsson
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Varnarmiðjumaðurinn Oliver Sigurjónsson átti afar gott tímabil í fyrra en hann var valinn besti ungi leikmaður Pepsi-deildarinnar þegar Breiðablik hafnaði í öðru sæti.

Oliver er fyrirliði íslenska U21-landsliðsins og er spenntur fyrir tímabilinu hjá Blikum sem spáð er 4. sæti í spá Fótbolta.net þetta árið.

„Það eru kominn svokallaður fiðringur í magann á flestum. Lengsta undirbúningstímabil Evrópu er að enda. Færeyjar eru meira að segja með fleiri leiki og lengra tímabil en við," segir Oliver sem viðurkennir að það yrðu vonbrigði ef fjórða sætið yrði niðurstaðan.

„Þetta er liðsíþrótt, ef fólk vissi ekki af því, og erum með svakalega gott lið. Við erum með okkar markmið og við vinnum út frá þeim á þessu tímabili."

Blikum hefur gengið illa að skora á undirbúningstímabilinu. Er það áhyggjuefni?

„Nei. Samkvæmt mínum reikningum erum við búnir að skora hlutfallslega sirka 1,6 mark að meðaltali í leik á undirbúningstímabilinu. Við skoruðum sirka 1,5 á Íslandsmótinu í fyrra. Eini munurinn er sá að við erum að fá allt of mikið af mörkum á okkur núna. Við þurfum að bæta okkur í báðum teigum og skora fleiri mörk en hinir í hverjum einasta leik," segir Oliver.

Hann hefur verið að glíma við meiðsli á undirbúningstímabilinu en er bjartsýnn á að geta sýnt sínar bestu hliðar þegar í alvöruna er komið.

„Ég er allur að koma til. Er búinn að koma inná í síðustu tveimur leikjum og gengið vel hjá mér persónulega. Vonandi er vinnan innan og utan vallar að fara að skila sér inn í sumarið."

Mikið hefur gerst á leikmannamarkaðnum í sumar hjá liðum Pepsi-deildarinnar og útlit fyrir sterkari deild en í fyrra.

„Já, 100%. Góðærið er að komið aftur og menn eru að eyða cash hingað og þangað. Þetta styrkir deildina hiklaust en bitnar á ungum strákum til þess að fá að vaxa og dafna," segir Oliver sem sér það jákvæða og neikvæða við þessa þróun.
Athugasemdir
banner
banner
banner