Isak, Tuchel, Sesko, Amorim, Rabiot, Branthwaite og fleiri góðir í slúðrinu í dag
banner
   mið 06. september 2017 16:44
Magnús Már Einarsson
Guðni Bergs um FIFA 18: Telur ekki margar milljónir króna
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: KSÍ
„Viðræður tóku einhverja mánuði. Síðan var spurning um að tilkynna þegar það hentar báðum aðilum. Leikurinn kemur út bráðlega og nú var tímabært að tilkynna þetta," sagði Guðni Bergsson, formaður KSÍ, við Fótbolta.net í dag en sambandið tilkynnti í dag að íslenska karlalandsliðið verði í tölvuleiknum FIFA 18 sem kemur út síðar í mánuðinum.

„Ég tel að þetta sé mjög jákvætt fyrir okkar landslið, íslenska knattspyrnu og okkar markaðsstarf. Við erum að byggja ofan á athyglina sem við fengum síðasta sumar og áfram á þessu ári. Við eigum að láta til okkar taka lika á þessu sviði."

„Þetta á eftir að gleðja þúsundir spilara hér heima og á annað hundrað milljónir sem maður hefur heyrt að spili þetta erlendis. Það er mikilvægt að við séum í leiknum. Það er líka skemmtilegt fyrir leikmennina að vera í þessum þekktasta íþróttaleik heims."


Tilboðið hærra en síðast
KSÍ hafnaði tilboði frá EA Sports um að vera með landsliðið í FIFA. Geir Þorsteinsson, þáverandi formaður, sagði að tilboðið þá hefði hljóðað upp á eina milljón króna. Tilboðið núna var hærra frá EA Sports.

„Það var meira en það. Þetta telur ekki margar milljónirnar en ég taldi mikilvægt að við værum með á þessu stóra sviði í tölvuleikjafótboltaheiminum. Ég hafði það í fyrirrúmi. Þetta eru peningar sem við værum ekki að fá annars og þetta er líka gert af tilitssemi við stuðningsmenn sem eru að spila leikinn. Ég taldi þetta vera jákvætt og gott skref fyrir okkur," sagði Guðni.

Gæti byrjað sjálfur að spila FIFA
Guðni gæti sjálfur byrjað að spila FIFA eftir tíðindi dagsins. „Það getur vel verið að ég geri það. Ég hef prófað að spila og þá þótti ég ekkert sérstaklega góður. Þetta verður allt annað þegar íslenska landsliðið er komið inn," sagði Guðni léttur í bragði.

Sjá einnig:
Ísland er með í FIFA 18 (Staðfest)
KSÍ reyndi að fá kvennalandsliðið og Pepsi-deildina inn í FIFA 18
Athugasemdir
banner
banner