Rashford, Fonseca, Moyes, Jorginho, Fati, Lenglet, Amorim, Sterling og Lukaku koma við sögu
   fim 16. október 2014 13:04
Elvar Geir Magnússon
„Van Persie og Robben duttu úr vasa Kára"
Kári í leik með landsliðinu í Lettlandi.
Kári í leik með landsliðinu í Lettlandi.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Hinn litríki Steve Evans.
Hinn litríki Steve Evans.
Mynd: Getty Images
Steve Evans, hinn litríki knattspyrnustjóri Rotherham, fer lofsamlegum orðum um íslenska landsliðsmanninn Kára Árnason. Evans segir að Robin van Persie og Arjen Robben hafi dottið úr vasa Kára þegar hann mætti á æfingu hjá enska liðinu í morgun.

Kári hefur verið besti leikmaður Rotherham sem er nýliði í ensku Championship-deildinni. Hann kom til Rotherham 2012 þegar liðið var í ensku D-deildinni og hefur farið upp um tvær deildir með liðinu.

„Ég lagði mikla áherslu á að fá Kára til liðsins eftir að ég frétti að hann væri tilbúinn að koma aftur til Englands. Njósnari okkar fór reglulega til Aberdeen og fylgdist með gangi mála hjá honum. Ég talaði oft við Kára og sannfærði hann um að við hefðum burði til að komast þangað sem við ætluðum, í Championship-deildina," segir Evans.

Evans segir að kaupin á Kára hafi verið ein sú bestu sem hann hafi gert á ferlinum en Kári hefur blómstrað bæði með Rotherham og íslenska landsliðinu.

„Það var ófyrirsjáanlegri bolti í deildunum sem ég spilaði í fyrir þó ég hafi spilað ágætlega þar. Boltinn var hengdur upp í loftið og svo var barátta um seinni boltann," sagði Kári í viðtali við Fótbolta.net fyrir leikinn gegn Hollandi.

„Í Championship-deildinni er spilaður meiri fótbolti og leikmenn eru betri. Fyrir tímabilið ætluðum við að komast í umspilið og vonandi gengur það upp. Það yrði þó alltaf ásættanlegt að vera um miðja deild á fyrsta ári. Við erum í kringum fallsætið en vonandi náum við klifra upp töfluna."

Rotherham er í 17. sæti Championship-deildarinnar af 24 liðum.
Athugasemdir
banner
banner