Arsenal endurnýjar áhuga á Luiz - Man Utd reynir við Todibo - Tottenham vill Sudakov
   mán 02. júlí 2018 16:21
Elvar Geir Magnússon
Óttast að annar kólumbískur leikmaður verði myrtur
Andres Escobar í leik á HM í Bandaríkjunum 1994.
Andres Escobar í leik á HM í Bandaríkjunum 1994.
Mynd: Getty Images
Mynd: Nordic Photo / Getty Images
Bróðir Andres Escobar óttast að einhver leikmaður Kólumbíu á HM í Rússlandi verði gerður að blóraböggli og gæti þurft að óttast um líf sitt ef liðið veldur vonbrigðum á mótinu.

Andres Escobar var skotinn til bana tíu dögum eftir að hann skoraði sjálfsmark í 2-1 tapi Kólumbíu gegn Bandaríkjunum á HM 1994.

Lífvörður sem vann fyrir eiturlyfjaklíku var síðar fangelsaður fyrir morðið en Escobar var 27 ára.

Á HM í Rússlandi fékk kólumbíski miðvörðurinn Carlos Sanchez líflátshótanir eftir að hafa fengið rauða spjaldið þegar þrjár mínútur voru liðnar af fyrsta leik liðsins á mótinu, gegn Japan.

24 ár eru síðan Escobar var myrtur en bróðir hans, Sachi, óttast að menn hafi ekki lært í Kólumbíu og óttast hreinlega að sagan endurtaki sig ef Kólumbía tapar gegn Englandi í 16-liða úrslitum HM á morgun.

„Hótanirnar sem Sanchez fékk sanna að þjóðin hefur ekki lært neitt þrátt fyrir morðið á bróður mínum. Ég vil ekki að nokkur maður gangi í gegnum það sama og við fjölskyldan höfum þurft að gera," segir Sachi.

„Bróðir minn fékk engar hótanir. Hann var bara skotinn til bana af heiglum. Að fólk fái að segja svona hluti á samfélagsmiðlum og vera með líflátshótanir sýnir að engin vitundavakning átti sér stað þrátt fyrir dauða Andres. Við lærðum ekkert. Fólk sem lætur svona út úr sér á að vera fangelsað en það eru engin lög í þessu landi sem ná yfir þetta."

„Ég vil senda skilaboð til fólks sem heldur að hægt sé að laga hluti með ofbeldi og vopnum, að það geti tekið líf annars einstaklings því hann gerði mistök. Í þessu tilfelli líf fótboltamanns. Horfið á leikmennina sem manneskjur, syni, eiginmenn og feður. Fótbolti á að vera boðberi friðar og samfélagsbreytinga. Þegar allt kemur til alls er þetta bara leikur."

„Ég er meðvitaður um það að leikmenn eru undir meiri pressu á HM en nokkru sinni áður. Meðal annars vegna þess að þjóðin trúir því að við getum farið alla leið. Ég vona að ef Kólumbía stendur ekki undir væntingum muni harmleikurinn sem átti sér stað með bróðir minn ekki endurtaka sig," segir Sachi.

Hann segir að HM kalli alltaf upp erfiðar minningar fyrir sig og fjölskyldu sína. Minni þau á að Escobar sé ekki meðal þeirra.

Andres Escobar skoraði eitt landsliðsmark fyrir Kólumbíu, það var gegn Englandi. Kólumbía og England mætast í 16-liða úrslitum HM annað kvöld.
Athugasemdir
banner
banner