Barcelona og Man City vilja Olmo - Liverpool gæti reynt við Kudus - Chelsea og Barcelona hafa áhuga á Dybala
   fim 15. nóvember 2018 20:19
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Arnór komst ekki í U16 - Fyrsti A-landsleikurinn í kvöld
Icelandair
Arnór er aðeins 19 ára gamall.
Arnór er aðeins 19 ára gamall.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Arnór í leik með CSKA Moskvu.
Arnór í leik með CSKA Moskvu.
Mynd: Getty Images
Arnór Sigurðsson er í kvöld að spila sinn fyrsta A-landsleik fyrir Ísland.

Arnór er í byrjunarliðinu gegn Belgíu í Þjóðadeildinni.

Þetta er í fyrsta sinn sem Arnór er í A-landsliðshóp og hann hoppar beint inn í byrjunarliðið eftir að hafa hrifið Erik Hamren og Frey Alexandersson.

Saga Arnórs er mögnuð. Á síðasta ári var hann að leika sér upp á Skaga áður en hann var keyptur til Norrköping í Svíþjóð. Hann heillaði forráðamenn Norrköping sem ákváðu að taka sénsinn á þessum efnilega leikmanni.

Hann vann sér leið inn í aðalliðið hjá Norrköping og á þessari leiktíð í Svíþjóð var hann orðinn byrjunarliðsmaður. CSKA Moskvu fylgdist með Arnóri og ákvað að kaupa hann á síðastliðnu sumri fyrir metfé. Hann er dýrasti leikmaður sem Norrköping hefur nokkurn tímann selt frá sér.

Síðustu vikur hafa verið ævintýri líkast fyrir Arnór. Hann spilaði sína fyrstu leiki í Meistaradeildinni og skoraði sitt fyrsta mark, gegn Roma í síðustu viku. Arnór skoraði þá sitt fyrsta mark í rússnesku úrvalsdeildinni um síðustu helgi.

Hann er í kvöld kominn í byrjunarlið íslenska A-landsliðsins og verður spennandi að sjá hvað hann gerir gegn sterkasta landsliði heims, Belgíu.

Komst ekki í U16 landsliðið
Þetta hefur allt saman gerst rosalega hratt fyrir Arnór sem er aðeins 19 ára að aldri.

Hann hefur leikið fyrir U17, U19 og U21 landslið Íslands en var á sínum tíma ekki valinn í U16 landsliðið þar sem hann var ekki nægilega stór og sterkur. Á þessu er vakin athygli á Twitter í kvöld. Hjálmur Dór, fyrrum leikmaður ÍA, gerir það.


„Ákvað að nota mótlætið til að verða betri. Þvílíka ferðalagið," skrifar Hjálmur Dór.

Arnór á 15 leiki fyrir U17 landsliðið, en aðeins fimm leiki fyrir U19 landsliðið og sömuleiðis fyrir U21 landsliðið. Hann var ekki valinn í U21 landsliðið fyrr en fyrr á þessu ári. Hann fékk sína fyrstu alvöru leiki með U21 landsliðinu í september.

Í kvöld er hann svo að spila með A-landsliðinu gegn Belgíu. Svo sannarlega hægt að taka þennan efnilega leikmenn til fyrirmyndar en mikið hefur verið talað um það hversu mikið hann hefur lagt á sig til að komast á þennan stað.

Smelltu hér til að fara í beina textalýsingu frá leik Belgíu og Íslands.
Athugasemdir
banner
banner
banner