Varane, Diaz, Matip, Yamal, Davies og Rashford koma við sögu
   fös 22. mars 2024 08:30
Brynjar Ingi Erluson
Sjaldan fellur eplið langt frá eikinni
Icelandair
Roy Revivo í baráttunni í leiknum
Roy Revivo í baráttunni í leiknum
Mynd: Getty Images
Ísraelski landsliðsmaðurinn Roy Revivo fékk reisupassann í 4-1 tapinu gegn Íslandi í umspili fyrir Evrópumótið í gær fyrir glæfralega tæklingu á Arnóri Sigurðssyni, en það má segja að þetta hafi verið í blóðinu.

Revivo fleygði sér í Arnór sem var að komast á sprettinn á vængnum og uppskar rautt spjald frá enska dómaranum Anthony Taylor.

Ísraelar spiluðu því manni færri og voru þrátt fyrir það nálægt því að jafna er þeir fengu aðra vítaspyrnu sína í leiknum, en sem betur fer fyrir Ísland skaut Eren Zahavi boltanum framhjá markinu.

Í nóvember 1999 mættust Ísrael og Danmörk í umspili um sæti á Evrópumótið. Leikurinn fór fram á Ramat Gan-leikvanginum í Tel Aviv og voru Danir tveimur mörkum yfir þökk sé Jon Dahl Tomasson, sem er einmitt fyrrum stjóri Arnórs hjá Blackburn Rovers.

Á 57. mínútu fékk Haim Revivo að líta rauða spjaldið, sem hjálpaði svo sannarlega ekki hans mönnum. Danir skoruðu þrjú mörk til viðbótar áður en leikurinn var úti.

Haim er faðir Roy en hann spilaði 67 landsleiki og skoraði 15 mörk á landsliðsferli sínum.


Athugasemdir
banner
banner