Bayern reynir aftur við Walker - Neves til Man Utd?
   mán 31. mars 2014 19:24
Fótbolti.net
Heimild: Stöð 2 
Guðlaugur Victor glímir við þunglyndi - Íhugaði að taka eigið líf
Guðlaugur Victor í leik með NEC.
Guðlaugur Victor í leik með NEC.
Mynd: Getty Images
Mynd: Getty Images
Mynd: Getty Images
Guðlaugur Victor Pálsson, leikmaður NEC Nijmegen, hefur gengið í gegnum erfið andleg veikindi undanfarin misseri sem endaði með því að hann fékk taugaáfall fyrir þremur mánuðum.

Guðlaugur Victor var í viðtali við Ísland í dag sem sýnt var á Stöð 2 í kvöld.

Guðlaugur Victor er 23 ára og hefur glímt við þunglyndi og kvíðaröskun án þess að láta mikið á því bera. Hann íhugaði að taka eigið líf og var í kjölfarið lagður inn á geðdeild Landspítalans. Hann hefur unnið hörðum höndum að því síðustu mánuði að ná bata.

Í viðtalinu ræddi hann við Hjört Hjartarson um erfiða æsku sína og veikindin.

„Uppeldið var óvenjulegt í heild sinni. Móðir mín er alkahólisti og var í neyslu þegar ég var ungur. Hún var einstæð. Pabbi minn kemur frá Portúgal og var inn og út úr mínu lífi. Hann hefur verið mikið í áfengi og dópi og móðir mín fékk ekki stuðning frá honum. Hann mætti oft ekki í pabbahelgarnar. Djammið og konurnar voru mikilvægari fyrir honum í gamla daga," segir Guðlaugur Victor.

Áttum varla efni á mat
Sextán ára skrifaði hann undir samning við AGF í Danmörku. Á sama var tíu ára sambandi móður hans og stjúpföður að ljúka. Í janúar 2009 keypti Liverpool Guðlaug Victor.

„Móðir mín veiktist mikið eftir skilnaðinn. Ég var ekki viss um hvort ég vildi fá móður mína með mér út. Maður sá það með tímanum að hún var að detta niður í veikindin. Sambandið var gott en varð alltaf skrítnara. Eftir skilnaðinn hennar var ég kominn í mikið ábyrgðarhlutverk ungur að aldri."

Móðir Gulla og systir fóru með honum til Liverpool en fyrr en varir var allt komið í óefni. Guðlaugur Victor var nánast gjaldþrota.

„Þegar fólk kom í heimsókn þurfti að sýna fólki hvað allt væri flott og fullkomið þó það væri það ekki. Ákveðið var að flytja í húsnæði sem við áttum varla efni á. Á tímabili áttum við ekki fyrir mat í enda mánaðarins."

Þetta endaði með því að systir Gulla fór til föður síns á Íslandi en móðir hans inn á geðdeild Landspítalans og hann sjálfur gekk í raðir Hibernian í Skotlandi,

Setti upp grímu og lék aðra persónu
„Mér leið aldrei vel en ég setti upp grímu eins og það væri allt í lagi og ég væri ferskur og kátur. Þarna byrjaði sama sagan. Það var mikil vanlíðan og ég var á sífelldu djammi. Ég var hættur að einbeita mér af því sem skipti máli í lífinu."

Guðlaugur Victor fór í NEC Nijmegen í Hollandi og síðastliðið haust var ástandið orðið það slæmt að hann fór ekki ótilneiddur út úr húsi.

„Það voru sumir dagar þar sem ég hringdi mig inn veikan á æfingar en setti bara gardínurnar niður og lá upp í rúmi. Ég var hættur að hugsa um hundinn og ég léttist sjálfur mikið. Það hafði samt enginn hugmynd um þetta því ég var svo góður í að leika aðra persónu."

„Mér leið rosalega illa, sjálfsálitið var rosalega lítið en ég var strákurinn sem var hjá Liverpool, þurfti að sýna öllum hvað ég væri flottur og mikill."

Hugsaði um að fremja sjálfsmorð
Um síðustu jól fékk hann svo taugaáfall.

„Það var eins og það hefði verið ýtt á einhvern takka. Ég fer að hugsa um að fremja sjálfsmorð því ég var bara kominn með nóg. Ég gat ekki hugsað mér að lifa svona lengur. Ég var alltaf að fá kvíðaköst og sífellt áhyggjufullur og þunglyndur. Mér leið bara rosalega illa. Þegar ég var farinn að hugsa um að fremja sjálfsmorð og þá áttaði ég mig, ég vaknaði."

Guðlaugur Victor fór á geðdeild Landspítalans og fékk þá greiningu að hann væri að glíma við þunglyndi.

„Ég er sjálfur að kynnast mér upp á nýtt. Það er enn nokkuð í land og ég held að þetta verði lífstíðarvinna en ég get fullyrt að mér hefur aldrei liðið eins vel og í dag. Mér hefur aldrei liðið svona vel. Ég er í dag að einbeita mér að því að vera hamingjusamur," segir Guðlaugur Victor í viðtalinu við Stöð 2. Hann talar talar við geðlækni tvisvar í viku og er á lyfjum.

Guðlaugur Victor er annar íslenski fótboltamaðurinn á skömmum tíma sem stígur fram og opinberar baráttu við geðræn vandamál en Ingólfur Sigurðsson var að glíma við kvíðaröskun og sagði sögu sína nýverið.
Athugasemdir
banner