Rashford, Fonseca, Moyes, Jorginho, Fati, Lenglet, Amorim, Sterling og Lukaku koma við sögu
   þri 13. maí 2014 13:40
Alexander Freyr Tamimi
Leikmaður 3. umferðar: Held þetta sé bara tilviljun
Elías Már Ómarsson (Keflavík)
Elías Már Ómarsson skoraði tvö mörk í gær.
Elías Már Ómarsson skoraði tvö mörk í gær.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Elías í unglingalandsleik gegn Svíþjóð fyrr á árinu.
Elías í unglingalandsleik gegn Svíþjóð fyrr á árinu.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Elías Már Ómarsson, sóknarmaður Keflavíkur, átti frábæran leik og skoraði bæði mörkin í 2-0 sigri liðsins gegn Breiðabliki í Pepsi-deildinni í gær.

Elías Már er einungis 19 ára gamall en er mikið efni og átti frábæran leik í gær, og er hann leikmaður umferðarinnar á Fótbolta.net.

„Mér finnst þessi tilnefning koma smá á óvart, en það er bara mjög gaman að fá þennan titil,“ sagði Elías Már við Fótbolta.net.

„Mér fannst þetta vera virkilega verðskuldaður sigur. Við spiluðum leikinn af miklum krafti og vorum með mikla baráttu. Liðsheildin var mjög góð og mér fannst þetta bara verðskuldað. Það var virkilega skemmtilegt að skora tvö mörk, en ég hefði aldrei getað það nema af því ég er með þessa leikmenn á bakvið mig.“

Elías Már skoraði tvö mörk í Pepsi deildinni í fyrra og komu þau bæði gegn Breiðabliki. Hann skoraði síðan tvö mörk gegn Blikum í gær. Kann hann svona vel við að mæta landsliðsmarkverðinum Gunnleifi Gunnleifssyni?

,,Neinei, ég held að þetta sé nú bara tilviljun," sagði Elías hógvær.

Keflvíkingar hafa komið flestum fótboltaunnendum á óvart og unnið fyrstu þrjá leiki sína, en Elías Már er ekki hissa á þessari frábæru byrjun.

„Þetta hefur ekki komið mér á óvart. Markmiðið hefur verið að vinna alla leiki sem við mætum í og það er búið að gerast núna í síðustu þremur leikjum. Við ætlum bara að halda þessu áfram og taka sem flest stig,“ sagði Elías Már.

Kristján Guðmundsson var hársbreidd frá því að gera Keflavík að Íslandsmeisturum árið 2008 og sneri hann aftur til liðsins á síðustu leiktíð. Elías Már segir að Kristján henti Keflavík mjög vel.

„Ég myndi segja það. Stjáni er náttúrulega alveg frábær karakter og frábær þjálfari, og kemur með góða strauma inn í liðið. Það er gott að spila undir hans stjórn,“ sagði Elías Már.

Það hefur verið mikil stemning á fyrstu heimaleikjum Keflavíkur í ár. Boðið er upp á sláarkeppni í hálfleik og Joey Drummer er nýr vallarþulur og heldur uppi stuðinu.

„Það er mjög fínt að hafa hann þarna. Hann er flottur strákur og það er mjög skemmtilegt að hann sé aðeins að lífga upp á þetta í hálfleik hjá Keflvíkingum. Það er mjög mikil stemning og það er mjög gaman að vera að spila fyrir framan þessa stuðningsmenn,“ sagði Elías Már, leikmaður umferðarinnar.
Athugasemdir
banner
banner
banner