mið 08. ágúst 2018 13:31
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Guðni benti á 54% sigurhlutfall Hamren - „Frábær þjálfari"
Icelandair
Næsti landsliðsþjálfari Íslands er Erik Hamren. Hér kynnir Guðni Bergsson hann á fréttamannafundi í dag.
Næsti landsliðsþjálfari Íslands er Erik Hamren. Hér kynnir Guðni Bergsson hann á fréttamannafundi í dag.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Erik Hamren á fréttamannafundi í dag.
Erik Hamren á fréttamannafundi í dag.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Leyfið mér að kynna til sögunnar, Erik Hamren, næsta landsliðsþjálfara karla," sagði Guðni Bergsson á blaðamannafundi í höfuðstöðvum KSÍ í dag.

Sjá einnig:
Erik Hamren nýr landsliðsþjálfari Íslands (Staðfest)

Hamren tekur við landsliðinu af Heimi Hallgrímssyni. Freyr Alexandersson verður Hamren til aðstoðar en Helgi Kolviðsson stígur til hliðar.

Á fimmtudaginn greindi Fótbolti.net frá því að Hamren yrði næsti landsliðsþjálfari og það kom í ljós í dag.

„Það tókst ekki að halda þessu leyndu. Niðurstaðan er engu að síður okkur mjög ánægjuleg. Erik er okkar næsti landsliðsþjálfari. Þetta hefur verið knappt ferli," sagði Guðni.

„Við teljum að ráðning Erik sé rökrétt framhald. Á þessum árum með sænska landsliðið var hann með 54% sigurhlutfall. Við erum að fá frábæran þjálfara."


Hamren er með öfluga ferilskrá en hann vann sænska bikarinn í þrígang, tvisvar með AIK og einu sinni með Örgryte. Hann vann tvo Noregsmeistaratitla með Rosenborg, 2009 og 2010, og gerði Álaborg að meisturum í Danmörku 2008.

Í kjölfarið tók Hamren við sænska landsliðinu en hann kom liðinu á Evrópumótin 2012 og 2016.

Hamren var frekar óvinsæll í heimalandinu þegar hann stýrði Svíþjóð en samt var hann með betra sigurhlutfall en Lars Lagerback og núverandi landsliðsþjálfari, Janne Andersson.

Fyrstu leikir íslenska landsliðsins undir stjórn Hamren eru strax í næsta mánuði. Ísland heimsækir Sviss í Þjóðadeildinni þann 8. september og þremur dögum síðar kemur Belgía, bronsliðið á HM, í heimsókn á Laugardalsvöll.

Freyr aðstoðarþjálfari, en klárar undankeppnina með kvennalandsliðinu
Freyr Alexandersson verður Hamren til aðstoðar eins og áður segir. Freyr er landsliðsþjálfari kvenna sem er í bullandi tækifæri á að komast á Heimsmeistaramót í fyrsta sinn.

„Hann mun halda áfram sem þjálfari kvennalandsliðsins og hans verkefni er að sjálfsögðu að koma kvennaliðinu á HM. Það mun ekkert breytast. Það er okkar markmið," sagði Guðni.

Freyr hefur verið að njósna fyrir karlalandsliðið og var í teymi landsliðsins á HM í sumar.

„Freyr þekkir vel til karlaliðsins og það er þessi tenging sem við viljum halda. Við viljum halda í þessi gildi og þessar hugmyndir sem við höfum unnið eftir. Við erum með mjög góða blöndu tveggja þjálfara. Þetta gefur okkur tækifæri til að viðhalda stöðugleika."
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner