Rashford, Fonseca, Moyes, Jorginho, Fati, Lenglet, Amorim, Sterling og Lukaku koma við sögu
   mán 26. maí 2014 14:30
Magnús Már Einarsson
Bestur í 5. umferð: Erfitt en er að skila sér
Ögmundur Kristinsson.
Ögmundur Kristinsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
,,Þetta var mjög góður leikur hjá mér og liðinu og það var svekkjandi að ná ekki í þrjú stig," segir Ögmundur Kristinsson markvörður Fram og leikmaður 5. umferðar í Pepsi-deildinni en hann var öflugur í 1-1 jafnteflinu gegn Blikum á fimmtudag.

Ögmundur er fyrirliði Fram en þessi 24 ára gamli leikmaður er orðinn einn af reynslumeiri leikmönnum liðsins.

,,Maður hefur ekki lent í því áður að vera í eldra liðinu á æfingu. Þetta er bara fínt. Maður getur vonandi miðlað einhverju til þessara ungu og efnilegu stráka."

Miklar breytingar urðu á leikmannahópi Fram eftir síðasta tímabil en Ögmundur er sáttur við útkomuna.

,,Mér finnst þetta hafa gengið ágætlega. Þetta tekur tíma og mun taka tíma. Allir sem horfa á fótbolta vita að þetta var ekki að fara að gerast á einni nóttu hjá Fram. Menn verða að vera duglegir að fá reynslu og nýta sér hana."

Æfir tvisvar á dag
Ögmundur hefur einbeitt sér að fótboltanum síðan hann útskrifaðist úr háskóla fyrir einu og hálfu ári síðan. Ögmundur æfir oftar en ekki tvisvar á dag.

,,Ég hef æft hjá afreksþjálfaranum Stefáni Jóhannssyni í frjálsíþróttahöllunni. Þar er ég í power og snerpu æfingu. Hann á mikið lof skilið fyrir sinn þátt. Þetta hefur verið erfitt en þetta er að skila sér."

Stefnir á atvinnumennsku
Í janúar fór Ögmundur til skoska félagsins Motherwell á reynslu. Ögmundi gekk vel og ekki er útilokað að hann gangi í raðir skoska félagsins.

,,Mér gekk persónulega vel þegar ég æfði þarna. Ég veit ekki hvernig staðan er á þessu, þeir eru að skoða sín mál og vonandi gerist eitthvað þar eða annars staðar. Ég ætla að reyna að komast erlendis. Maður verður að standa sig hjá Fram og þá vonandi gerist það."

Ögmundur er í íslenska landsliðshópnum fyrir vináttuleik gegn Eistum í næstu viku. Ögmundur hefur verið viðloðandi landsliðshópinn undanfarið en hann bíður eftir fyrsta landsleiknum.

,,Maður vonast alltaf eftir að fá að spila en það er ekki í mínum höndum að ráða því. Ég treysti Lars og Heimi til að velja þetta. Maður færist örugglega nær og nær þessu eftir því sem maður er oftar valinn og það er mikill heiður að vera í hópnum," sagði Ögmundur að lokum.

Sjá einnig:
Leikmaður 4. umferðar - Ólafur Karl Finsen (Stjarnan)
Leikmaður 3. umferðar - Elías Már Ómarsson (Keflavík)
Leikmaður 2. umferðar - Jonas Sandqvist (Keflavík)
Leikmaður 1. umferðar - Mads Nielsen (Valur)
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner