Rashford, Fonseca, Moyes, Jorginho, Fati, Lenglet, Amorim, Sterling og Lukaku koma við sögu
   þri 24. júní 2014 12:30
Elvar Geir Magnússon
Bestur í 9. umferð: Held að Suarez fari ekki
Kristján Gauti Emilsson (FH)
Kristján Gauti og félagar fagna marki.
Kristján Gauti og félagar fagna marki.
Mynd: Fótbolti.net - J.L.
Í gæslu hjá varnarmanni Fram.
Í gæslu hjá varnarmanni Fram.
Mynd: Fótbolti.net - J.L.
Kristján mundar fótinn í leiknum í gær.
Kristján mundar fótinn í leiknum í gær.
Mynd: Fótbolti.net - J.L.
Kristján Gauti Emilsson fór hamförum með FH í 4-0 sigri gegn Fram í gær. Hann skoraði tvö mörk og lagði upp eitt. Hann er leikmaður umferðarinnar hér á Fótbolti.net.

Þetta var í fyrsta sinn síðan 8. maí sem FH nær að skora meira en eitt mark eins og hefur verið umtalað.

„Í stöðunni 1-0 er þetta ekki öruggt eins og við vitum öll. Þá þarf bara eitt mark frá hinu liðinu. Það var gríðarlega mikilvægt að setja fleiri og gera út um leikinn," segir Kristján Gauti við Fótbolta.net.

FH-ingar sem eru þekktir fyrir 4-3-3 leikkerfi sitt breyttu til í þessum leik og það svínvirkaði.

„Við byrjuðum á að spila 4-4-2 og náðum að sækja stíft á þá í upphafi og það skilaði marki. Mér fannst þetta leikkerfi vera að virka vel. Ég er alveg til í að spila þetta leikkerfi áfram en það fer náttúrulega eftir því hver mótherjinn er hverju sinni hvernig við spilum."

Þrettán er happatala
Kristján hefur átt frábært tímabil og til að mynda verið fjórum sinnum í úrvalsliði umferðarinnar.

„Ég held að ég geti verið sáttur með mína frammistöðu. Það er búið að ganga vel. Ég er búinn að vera að skora og liðið hefur verið að spila mjög vel. Ég held að við getum allir verið mjög sáttir. Við erum á toppnum," segir Kristján sem leikur í treyju númer þrettán þrátt fyrir að margir stimpli hana sem óhappatölu.

„Þrettán er mín tala. Þrettán er happatala og ég skil ekki fólk sem segir annað. Talan hefur allavega reynst mér vel."

Stefnir í atvinnumennsku
Á mörgum leikjum Pepsi-deildarinnar eru erlendir útsendarar að fylgjast með enda margir spennandi leikmenn að koma upp á Íslandi. Kristján stefnir á atvinnumennskuna.

„Það er draumur allra ungra fótboltamanna að komst í atvinnumennsku. Meðan það gengur vel er góður möguleiki á því. En þetta var bara einn leikur í gær. Maður verður að halda áfram að standa sig vel og sjá svo hvað gerist. Maður bara einbeitir sér að því að spila vel með FH í sumar."

Ég vona að þú verðir áfram!
Kristján Gauti er fæddur 1993 og er uppalinn hjá FH en hann gekk til liðs við Liverpool í lok árs árið 2009. Hann spilaði með unglingaliðum félagsins en kom svo aftur í FH 2012. Eitt stærsta umræðuefnið á kaffistofum þessa dagana er framtíð úrúgvæska sóknarmannsins Luis Suarez sem er orðaður við Barcelona og Real Madrid.

„Ég hef haldið með Liverpool síðan ég var lítill polli og mun alltaf gera það. Ég vona innilega að Suarez sé ekki á förum. Hann er einn besti leikmaður í heimi og að væri gríðarlegur missir ef hann færi þó við myndum fá hrikalega mikinn pening fyrir hann," segir Kristján.

„Ég held að hann fari ekki. Við lentum í öðru sæti á liðnu tímabili og erum í Meistaradeildinni á næsta ári. Ef hann er að lesa þetta: Ég vona að þú verðir áfram!"

Sjá einnig:
Leikmaður 8. umferðar - Aron Elís Þrándarson (Víkingur)
Leikmaður 7. umferðar - Pape Mamadou Faye (Víkingur)
Leikmaður 6. umferðar - Veigar Páll Gunnarsson (Stjarnan)
Leikmaður 5. umferðar - Ögmundur Kristinsson (Fram)
Leikmaður 4. umferðar - Ólafur Karl Finsen (Stjarnan)
Leikmaður 3. umferðar - Elías Már Ómarsson (Keflavík)
Leikmaður 2. umferðar - Jonas Sandqvist (Keflavík)
Leikmaður 1. umferðar - Mads Nielsen (Valur)
Athugasemdir
banner
banner
banner