Rashford, Fonseca, Moyes, Jorginho, Fati, Lenglet, Amorim, Sterling og Lukaku koma við sögu
   mið 16. ágúst 2017 18:44
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Ögmundur æfir í Bristol - Hafa líka áhuga á Rúnari
Ögmundur fær tækifæri til að sanna sig hjá Bristol City.
Ögmundur fær tækifæri til að sanna sig hjá Bristol City.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Ögmundur Kristinsson, varamarkvörður íslenska landsliðsins, er á leið til reynslu hjá Bristol City á Englandi.

Fótbolti.net greindi frá því á mánudag að Bristol hefði áhuga á Ögmundi, en nú hefur íþróttastjóri Hammarby staðfest það. Hann segir að Ögmundur muni æfa með Bristol.

Ögmundur er á förum frá Hammarby eftir að sænska félagið keypti Johan Wiland frá Malmö á dögunum.

„Já, það er rétt, hann er á leið þangað," sagði Jesper Jansson, íþróttastjóri Hammarby, í viðtali við sænsku vefsíðuna FotbollDirekt.se.

Ögmundur mun taka næstu dagana í það að kynnast leikmönnum Bristol City og taka nokkrar æfingar með liðinu. Hann þekkir að minnsta kosti einn leikmann liðsins, Hörð Björgvin Magnússon.

Hann mun fá nokkrar æfingar til að sanna sig og síðan mun þjálfarateymi Bristol City taka ákvörðun.

Bristol City er að leita að markverði sem mun veita Frank Fielding alvöru samkeppni um byrjunarliðssæti.

Ef Ögmundur heillar ekki, þá gæti félagið samt fengið íslenskan markvörð. Rúnar Alex Rúnarsson, markvörður Nordsjælland í Danmörku, er sagður á "radar" félagsins.

Bristol leikur í ensku Championship-deildinni. Liðið er eftir þrjá leiki með fjögur stig í deildinni.
Athugasemdir
banner
banner