Fundað um Pochettino - Man City tryggir sér undrabarn - Arsenal ætlar að styrkja hópinn
   lau 19. maí 2018 14:30
Ingólfur Stefánsson
Vialli vill að Chelsea haldi Conte
Mynd: Getty Images
Giunluca Vialli fyrrum stjóri Chelsea telur að það yrðu mistök hjá félaginu að reka Antonio Conte núverandi stjóra liðsins.

Framtíð Conte hjá Chelsea hefur verið til mikillar umræðu í vetur. Hann gerði liðið að Englandsmeisturum fyrir ári síðan en liðið hefur ekki staðið undir væntingum á núverandi tímabili.

Liðið endaði í 5. sæti ensku úrvalsdeildarinnar en er komið í úrslit FA bikarsins og mætir Manchester United á Wembley klukkan 16.15 í dag.

Það gæti orðið síðasti leikur Conte með Chelsea þó svo að hann nái að landa bikarnum. Vialli telur að það yrðu mistök hjá Chelsea að reka Conte.

„Ef ég væri Conte myndi ég hugsa mig tvisvar um áður en ég myndi yfirgefa Chelsea. Ef ég væri Chelsea myndi ég hugsa mig þrisvar um áður en ég myndi reka Conte," sagði Vialli.

„Hann náði frábærum árangri á síðasta tímabili. Það er alltaf erfitt að fylgja slíku tímabili en hann gerði allt sem var mögulegt á þessu tímabili."

„Þeir spiluðu vel í Meistaradeildinni og eru komnir í úrslit FA bikarsins. Í heildina er þetta ekki eins slæmt og fólk vill meina. Ég vona að þetta samband haldi áfram."
Athugasemdir
banner
banner