Bayern reynir aftur við Walker - Neves til Man Utd?
   þri 10. maí 2011 11:32
Elvar Geir Magnússon
Ingólfur vill losna frá KR - „Mér finnst þetta ógeðslegt"
Segir KR-inga hrædda við að hann blómstri annarstaðar
Skrif Ingólfs á Twitter í gærkvöldi.
Skrif Ingólfs á Twitter í gærkvöldi.
Mynd: Twitter
„Ungir og efnilegir leikmenn. Haldið ykkur frá KR." - Þetta skrifaði Ingólfur Sigurðsson, leikmaður KR, á Twitter-síðu sína í gær. Um tíu mínútum síðar fjarlægði hann þessa færslu. Ingólfur vill losna frá liðinu og er tilbúinn að fara þær leiðir sem til þarf.

„Þetta var með vilja gert. Ég setti þetta inn í tíu mínútur því ég ætla að gera það sem ég get gert til að losna. Þetta er hvorki gáfuleg leið né töff en ég ætla að losna og er tilbúinn að ganga eins langt og til þarf," segir Ingólfur sem er átján ára gamall.

Ingólfur kom upphaflega til KR árið 2008 þegar hann var á yngra árinu í 3. flokki. Árið eftir lék hann með meistaraflokki í fyrsta sinn en fór á miðju sumri 2010 til hollenska félagsins Heerenveen. Hann skoraði fimm mörk í 16 leikjum með KR. Hann gekk svo aftur í raðir félagsins í febrúar.

Hann er ekki sáttur við hlutverk sitt hjá KR. „Þegar ég samdi við þá var því lofað að ég fengi mikið að spila. Svo korteri fyrir mót er sagt bara: Nei vinur," segir Ingólfur.

„Ég er að reyna að losna frá KR. Ég er búinn að reyna að fara auðveldu leiðina með því að tala við þá en það hefur ekki gengið."

Logi henti ´90 árgangnum í ruslið
KR vill ekki losa Ingólf undan samningi. „Ég er búinn að fá útskýringar fyrir því. Þeirra stærsta áhyggjuefni er að ég fari til annars liðs í Pepsi-deildinni og blómstri. Þá kemur það svo illa út fyrir þá. Þetta hafa þeir sagt orðrétt við mig og ég er langt frá því að vera sammála þessum hugsunarhætti. Mér finnst þetta ógeðslegt," segir Ingólfur.

Hann telur erfiðara fyrir unga og efnilega leikmenn að fá tækifæri hjá KR en öðrum liðum. „Það hefur bara sýnt sig. Þessi ´90 árgangur sem rúllaði upp deildinni í 2. flokki er gott dæmi. Þeim var svo bara hent í ruslið af meistara Loga Ólafssyni. Meðal annars unnum við 2. flokk Þórs sem var þá í öðru sæti 7-0. Í því liði voru menn sem eru núna að spila með Þórsliðinu í Pepsi-deildinni," segir Ingólfur.

Ingólfur hefur verið orðaður við Val og segir hann ekki ólíklegt að hann fari til Hlíðarendaliðsins fái hann sig lausan frá KR. „Ég er uppalinn Valsari og er Valsari. Það kemur mjög vel til greina," segir Ingólfur Sigurðsson.
banner
banner