Rashford, Fonseca, Moyes, Jorginho, Fati, Lenglet, Amorim, Sterling og Lukaku koma við sögu
   þri 20. maí 2014 07:00
Alexander Freyr Tamimi
Bestur í 2. deild: Förum upp ef við spilum eins og menn
Leikmaður 2. umferðar: Viktor Segatta
Viktor Smári Segatta skoraði fimm.
Viktor Smári Segatta skoraði fimm.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Viktor Smári Segatta, framherji ÍR, skoraði fimm mörk í 8-1 sigri liðsins gegn Völsungi í 2. deildinni um helgina.

Viktor Smári er leikmaður umferðarinnar í 2. deildinni hér á Fótbolta.net og er nú markahæstur í deildinni eftir fyrstu tvær umferðirnar.

„Þetta kemur svosum ekki á óvart. Ég held að það hafi ekki verið oft sem einhver hefur skorað fimm mörk og ekki verið valinn,“ sagði Viktor Smári við Fótbolta.net í dag.

Viktor Smári segir að góð byrjun hafi orðið til þess að ÍR-ingar náðu að vinna svona stóran sigur og segir hann Húsvíkinga einfaldlega hafa gefist upp.

„Þetta var góður liðsandi hjá okkur og þeir voru bara hættir. Þeir fá klaufalegt mark á sig í byrjun og lenda í smá sjokki, og við náum að koma inn tveimur mörkum fljótlega eftir það. Svo fáum við tiltölulega ódýrt víti og þá er staðan orðin 4-0, þeir ná aðeins að klóra í bakkann en síðan mætum við aftur inn í seinni hálfleikinn af krafti og klárum þetta bara,“ bætti Viktor við.

ÍR er með fjögur stig eftir fyrstu tvær umferðirnar, en liðið gerði jafntefli við Fjarðabyggð í fyrstu umferð. Viktor Smári er sáttur við uppskeruna en viðurkennir að liðið hefði viljað taka stigin þrjú gegn Fjarðabyggð.

„Þetta er alveg ásættanlegt. Við hefðum auðvitað viljað fá þrjú stig á móti Fjarðabyggð líka, en þetta er bara eins og þetta er og við höldum bara áfram á sömu braut,“ sagði Viktor.

ÍR sló erkifjendur sína í Leikni úr leik í 64-liða úrslitum Borgunarbikarsins og viðurkennir Viktor að það hafi verið gaman að senda erkifjendurna heim.

„Það er ekki margt skemmtilegara en að vinna Leikni,“ sagði Viktor, sem segir að ÍR-ingar ætli að hafa gaman af bikarkeppninni, en liðið mætir Aftureldingu í næstu umferð.

„Við mætum bara í næsta leik jafn vel stemmdir og við mættum í Leiknisleikinn, og ætlum bara að sjá hvað við getum. Þetta eru aukaleikir fyrir okkur, bara skemmtilegt.“

Viktor segir að ÍR-ingar ætli sér upp í 1. deildina á ný: „Ef við spilum eins og menn, þá eigum við að gera það.“

Sjá einnig:
Leikmaður 1. umferðar: Alexander Aron Davorsson
Stöðutaflan
  L U J T ms: mf: mun Stig
0 0 0 0 0 0 0 0 0
Athugasemdir
banner
banner
banner