Rashford yfirgefur Man Utd - Tottenham á eftir Alberti
   mán 12. maí 2014 16:45
Elvar Geir Magnússon
Bestur í 2. deild: Fékk að byrja á þrjóskunni og frekjunni
Leikmaður 1. umferðar - Alexander Aron Davorsson
Alexander Aron með boltann í leik gegn KV..
Alexander Aron með boltann í leik gegn KV..
Mynd: Fótbolti.net - Einar Ásgeirsson
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Þetta er óskabyrjun. Eina sem maður er ósáttur við er að hafa ekki fengið að eiga boltann eftir þrennuna,“ segir Alexander Aron Davorsson léttur en hann er leikmaður 1. umferðar 2. deildar.

Alexander gerði sér lítið fyrir og skoraði þrennu þegar Afturelding vann 4-1 sigur á KF. Fyrsta markið kom eftir fimm mínútna leik og það þriðja sautján mínútum síðar. Hálfleikurinn var viðburðarríkur hjá honum þar sem hann yfirgaf völlinn fyrir hálfleik vegna meiðsla.

„Fyrsta markið kom þannig að boltinn kom langt fram völlinn, varnarmaður náði ekki að hitta boltann með skalla og hann barst til mín. Ég vippaði yfir markvörðinn. Annað markið kom með skalla úr hornspyrnu og í því þriðja var Elvar (Ingi Vignisson) kominn upp hægri kantinn, lagði hann út og ég tók hann í fyrsta í hægra hornið.“

Alexander er að glíma við meiðsli í hné og ætlaði í fyrstu ekki að spila leikinn.

„Á þrjóskunni og frekjunni fékk ég að byrja leikinn. Ég vildi byrja fyrsta leik sumarsins en var svo tekinn af velli á 40. mínútu. Við eigum bikarleik gegn Ægi á þriðjudaginn og ég vonast til að geta verið með í þeim leik. Ég fer að skokka á eftir og þá kemur þetta í ljós,“ segir Alexander.

Það eru miklar breytingar á Aftureldingarliðinu frá síðasta tímabili.

„ Þetta er miklu yngra lið heldur en í fyrra. Ég held að sá elsti sé fæddur 1988 og sá yngsti 1998. Það er munur á því. Við erum með átta í byrjunarliðinu sem eru fæddir eftir 1990. Ég er leikjahæsti leikmaður Aftureldingar í liðinu 22 ára og það segir sitt.“

En hvert er markmið hans í sumar, hann hlýtur að stefna á fleiri mörk?

„Er þetta ekki bara komið fínt hjá mér? Nei nei, ég nenni samt ekki að segja að ég taki einn leik fyrir í einu. Það er hundleiðinleg klisja. Við ætlum að taka svona þrjá leiki í einu,“ segir Alexander kíminn að lokum.
Athugasemdir
banner
banner