Man Utd og Arsenal vilja Guehi - Osimhen gæti farið til Chelsea eða PSG - Geertruida gæti fylgt Slot til Liverpool
   þri 14. júlí 2015 16:20
Arnar Daði Arnarsson
Leikmaður umferða 1-11: Draumur að ná þeim stóra
Kristinn Jónsson (Breiðablik)
Kristinn Jónsson hefur verið magnaður.
Kristinn Jónsson hefur verið magnaður.
Mynd: Fótbolti.net - Ingunn Hallgrímsdóttir
Besti leikmaður umferða 1-11.
Besti leikmaður umferða 1-11.
Mynd: Fótbolti.net
Kristinn Jónsson leikmaður Breiðabliks hefur verið valinn besti leikmaður umferða 1-11 í Pepsi-deild karla.

Kristinn hefur farið mikinn í leikinn Breiðabliks í sumar, liðið situr í 3. sæti deildarinnar með 22 stig. Liðið hefur fengið á sig fæst mörk í deildinni og hefur Kristinn einnig átt þátt í nokkrum mörkum liðsins í sumar.

Róa allir í sömu átt
„Ég er þokkalega ánægður með mína frammistöðu eins og hjá öllu liðinu. Ég, og allt liðið getum gert betur. Við náum vonandi að sýna það í seinni umferðinni," sagði Kristinn sem segir það vera stíganda í Blikaliðinu. „Það er eitthvað sem við ætlum að byggja ofan á, í næstu leikjum."

Arnar Grétarsson tók við Blikaliðinu fyrir tímabilið og hann hefur sett skemmtilegan svip á bæði spilamennsku Blika og einnig hefur margt breyst hjá félaginu eftir tilkomu hans.

„Arnar Grétarsson hefur komið gríðarlega sterkur inn. Mér finnst allir hjá félaginu vera að róa í sömu átt. Allir í kringum liðið, stjórnin og stuðningsmennirnir. Það er eitt markmið og allir stefna í sömu átt."

Hefur lagt þvílíkt á sig
Kristinn Jónsson fór til sænska félagsins Brommapojkarna á láni á síðasta tímabili. Hann segist hafa lært töluvert af þeim tíma.

„Ég lærði hrikalega mikið að því bæði innan sem utan vallar. Það var mikilvægt fyrir mig að fara í annað umhverfi, þar sem ég var búinn að vera í Breiðablik lengi áður en ég fór út. Það var gott að komast annað og sjá aðra hluti."

„Það gekk ekki eins vel og ég hafði hugsað mér, bæði hjá mér og liðinu. Ég hefði viljað geta gert betur. Það er eitthvað sem hefur hjálpað mér á þessu tímabili og vonandi gagnast mér í framtíðinni."

„Frá því að ég kom heim hef ég lagt þvílíkt mikið á mig. Ég hef aldrei verið jafn ákveðinn um að ná þeim markmiðum að komast út sem allra fyrst," sagði Kristinn sem klárar þó að öllum líkindum tímabilið með Breiðablik.

„Það bendir nánast allt til þess að ég klári tímabilið með Breiðablik. Ef eitthvað kemur upp þá skoða Blikar það. Eina sem ég er að fókusa á, er að klára tímabilið með Breiðablik."

Til alls líklegir
Kristinn segir að Blikarnir geti haldið áfram að stefna að því að ná þeim markmiðum sem liðið setti sér fyrir tímabilið.

„Við stefnum á að vera í topp þremur sætunum í deildinni. Eins og við höfum spilað í sumar þá getum við haldið áfram að stefna að því markmiði."

„Það er klárt mál að minn draumur er ná stóra titlinum í lok sumars. Við erum með hrikalega stóran hóp og gott lið í dag. Planið er að styrkja liðið enn frekar í glugganum og við erum því til alls líklegir ef við höldum áfram á sömu braut," sagði Kristinn Jónsson leikmaður umferða 1-11 í Pepsi-deild karla.

Sjá einnig:
Úrvalslið umferða 1-11
Dómari umferða 1-11
Þjálfari umferða 1-11
Stuðningsmenn umferða 1-11
Athugasemdir
banner
banner
banner